Fótbolti

Elías Rafn hafði betur í Íslendingaslagnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elías Rafn fékk á sig eitt mark í kvöld.
Elías Rafn fékk á sig eitt mark í kvöld. Foto Olimpik/NurPhoto via Getty Images

Íslendingaslagur var á dagskrá er 3. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta hófst í kvöld. OB tók á móti Midtjylland í Óðinsvéum.

Bæði lið voru sigurlaus með eitt stig fyrir leik dagsins og freistuðu þess því bæði að komast á sigurbraut. Elías Rafn Ólafsson stóð milli stanganna hjá Midtjylland en Aron Elís Þrándarson var ekki í leikmannahópi OB.

Midtjylland náði yfirhöndinni þegar Anders Dreyer kom liðinu í forystu eftir 24. mínútna leik. Miðjumaðurinn Mads Fjökjær-Jensen jafnaði hins vegar fyrir heimamenn átta mínútum síðar og staðan var því 1-1 í leikhléi.

Í síðari hálfleik mættu gestirnir í Midtjylland töluvert ákveðnari til leiks. Gustav Isaksen kom liðinu yfir á ný þegar sjö mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Dreyer tvöfaldaði forskot liðsins með sínu öðru marki sex mínútum síðar og aðeins þremur mínútum eftir það, á 61. mínútu, breytti Gíneubúinn Sory Kaba stöðunni í 4-1.

Pione Sisto skoraði fimmta mark Midtjylland á 73. mínútu og lauk leiknum því 5-1 fyrir Jótlandsliðið.

Midtjylland er því komið með fjögur stig eftir þrjá leiki en OB er aðeins með eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×