Maðurinn, sem er 75 ára gamall, var einn á ferð og skildi bíl sinn eftir við eyðibýlið Hof fyrir tveimur vikum, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins um leitina.
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur birt tilkynningu vegna leitarinnar en þar segir að lögreglan hafi fengið ábendingu um bifreið á erlendum númerum, sem staðið hafi óhreyfð í marga daga í Flateyjardal. Strax hafi lögreglan hafist handa um eftirgrennslan eftir eigandanum og komið hafi í ljós að eigandinn heiti Bernd Meyer og sé frá Þýskalandi, fæddur 1947.
Meyer hafi komið til landsins í júní. Aðgerðastjórn vegna málsins var virkjuð í Húsavík og björgunarsveitir af Norðurlandi eystra boðaðar til leitarstarfa. Um hundrað eru að störfum í aðgerðinni. Leitað er með gönguhópum, drónum og bátum. Þá er von á þyrlu Landhelgisgæslunnar til að taka þátt í leitinni. Leitað verður meðan leitarbjart er en á morgun gera veðurspár ráð fyrir þoku á leitarsvæðinu.
Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar var haft samband við eiginkonu Meyers í Þýskalandi og fram komið hjá henni að hann hafi síðast sett sig í samband við hana 14. júlí og þá staddur í Flateyjardal og á leið í gönguferð. Þá hafi komið í ljós að hann hafi gist á Grenivík áður en hann fór í Flateyjardalinn.
Samkvæmt heimildum RÚV skildi maðurinn eftir bréf þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að ganga yfir í Fjörður og til baka í Flateyjardal.
Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega var ritað að mannsins væri leitað í Flateyrardal en sá dalur er ekki til.