Fótbolti

Þetta eru 10 bestu leikmenn Afríku

Atli Arason skrifar
Mohamed Salah þykir líklegur til árangurs. 
Mohamed Salah þykir líklegur til árangurs.  EPA-EFE/KHALED ELFIQI

Knattspyrnusamband Afríku hefur gefið út tíu manna lista með þeim leikmönnum sem tilnefndir eru sem besti leikmaður álfunnar. Liverpool á tvo fulltrúa á listanum en Chelsea og Manchester City eiga einn fulltrúa hvort.

Í raun á Liverpool þrjá fulltrúa þar sem Sadio Mane spilaði allt síðasta tímabil með Liverpool áður en hann skipti yfir til Bayern München.

Riyad Mahrez er á meðal topp tíu en hann vann ensku úrvalsdeildina með Manchester City. Á listanum má einnig finna Sadio Mane, Mohamed Salah og Naby Keita en þeir unnu enska deildarbikarinn og enska FA bikarinn með Liverpool. Salah var markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili ásamt Son Heung-min frá Suður-Kóreu.

Einnig eru tilnefndir Achraf Hakimi, sem vann frönsku deildina með PSG, og Vincent Aboubakar, sem varð fyrsti leikmaðurinn í hálfa öld til að skora átta mörk í Afríkukeppninni. Listann í heild má sjá hér að neðan.

Tekið er mið af frammistöðum leikmanna frá september 2021 til júní 2022. Sigurvegari verður tilkynntur þann 21. júlí næstkomandi.

Tveir Kamerúnar eru á meðal topp tíu á meðan Senegal á þrjá fulltrúa en Senegal varð Afríkumeistari í upphafi þessa árs.

  • Mohamed Salah, leikmaður Liverpool og Egyptalands
  • Riyad Mahrez, leikmaður Manchester City og Alsír
  • Sadio Mane, leikmaður Bayern München og Senegal
  • Achraf Hakimi, leikmaður PSG og Marokkó
  • Kalidou Koulibaly, leikmaður Napoli og Senegal
  • Naby Keita, leikmaður Liverpool og Gíneu
  • Vincent Aboubakar, leikmaður Al Nassr og Kamerún
  • Edouard Mendy, leikmaður Chelsea og Senegal
  • Karl Toko Ekambi, leikmaður Lyon og Kamerún
  • Sebastian Haller, leikmaður Dortmund og Fílabeinsstrandarinnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×