Þá mun Johnson svara spurningum þingmanna á breska þinginu á morgun er búist við miklu fjaðrafoki þar. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, mun meðal annars taka til máls og þá gætu þeir Rishi Sunak og Sajid Javid einnig haldið ræður um afsagnir þeirra.
Þeir sögðu af sér í kjölfar þess að Johnson viðurkenndi í viðtali hann hefði gert mistök við að skipa þingmanninn Chris Pincher í embætti aðstoðarþingflokksformanns. Pincher var nýverið sakaður um að káfa á tveimur mönnum og Johnson viðurkenndi einnig að hafa vitað af öðrum ásökunum gegn Pincher frá því fyrir þremur árum síðan.
Áður höfðu starfsmenn hans við Downingstræti 10 ítrekað haldið því fram að Johnson hefði ekki vitað af fyrri ásökunum gegn Pincher.
Aðrir lægra settir ráðherrar og embættismenn sögðu einnig af sér í kvöld en hátt settir ráðherrar lýstu yfir stuðningi við Johnson.
Í stað þeirra Sunak og Javid skipaði Johnson þá Nadhim Zahawi í embætti fjármálaráðherra og Steve Barclay í embætti heilbrigðisráðherra.
Blaðamenn BBC segja hins vegar að margir ráðherrar séu enn óánægðir með stöðu mála í ríkisstjórninni og mögulegt sé að nokkrir lægra settir ráðherra muni einnig segja af sér á morgun. Afsögnunum sé mögulega ekki lokið.
Þá segja nokkrir heimildarmenn Sky News í þinginu að ólíklegt sé að ríkisstjórnin standi til lengdar. Það megi þó aldrei vanmeta Boris Johnson. Einn sagði að Johnson gæti haldið út í nokkra mánuði.
Í greiningu Guardian segir að Johnson sé þekktur fyrir mikla þrjósku og ólíklegt sé að hann muni segja af sér. Sífellt fleiri þingmenn Íhaldsflokksins séu þó þeirrar skoðunar að þeir muni hljóta afhroð í næstu þingkosningum undir stjórn hans.
Forsætisráðherrann stóð nýverið af sér vantrauststillögu innan flokksins og samkvæmt reglum verður ekki hægt að leggja aðra fram fyrr en næsta sumar. Þeim reglum er þó hægt að breyta hvenær sem er.