Bíó og sjónvarp

Cameron Diaz snýr aftur á skjáinn eftir langt hlé

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Cameron Diaz hefur ekki tekið að sér verkefni í Hollywood í átta ár.
Cameron Diaz hefur ekki tekið að sér verkefni í Hollywood í átta ár. Netflix/Mary Ellen Matthews

Bandaríska leikkonan Cameron Diaz mun snúa aftur til vinnu í Hollywood eftir átta ára hlé. Hún mun leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni Back in Action, sem Netflix framleiðir.

Netflix tilkynnti þetta í gær en Diaz hefur frá árinu 2014 ekki tekið að sér nein hlutverk í kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum. Hún lék síðast í kvikmyndinni Annie sem kom út það ár.

Bandaríski leikarinn Jamie Foxx mun leika hitt aðalhlutverkið í myndinni sem sögð er vera hasar-grínmynd. Netflix hefur ekki viljað gefa neitt annað upp um hvað myndin fjallar.

Framleiðsla myndarinnar hefst síðar á þessu ári. Seth Gordon, sem helst er þekktur fyrir myndina Horrible Bosses mun leikstýra myndinni.

Jamie Foxx birti stutt hljóðbrot á Twitter í gær til að kynna myndina, þar má heyra stutt samtal á milli hans, Diaz og íþróttagoðsagnarinnar Tom Brady.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Foxx og Diaz leiða saman hesta sína. Þau léku saman í Annie, áðurnefndri kvikmynd sem var síðasta verkefni Diaz. Þá léku þau einnig saman í kvikmyndinni Any Given Sunday, sem kom út árið 1999.


Tengdar fréttir

Eyðir orkunni ekki lengur í útlitið

Leikkonan Cameron Diaz sagði í viðtali á dögunum að áhyggjur af útlitinu væru neðarlega á lista eftir að hún steig í burtu frá leiklistinni. Hún segist áður hafa verið fórnalamb samfélagslegra útlitisstaðla en sé komin á betri stað í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×