Norska lögreglan upplýsti á blaðamannafundi í dag að 42 ára gamall karlmaður sem er í haldi vegna skotárásarinnar sem kostaði tvo karlmenn lífið aðfaranótt laugardags hefði enn ekki verið yfirheyrður. Hann er sakaður um morð, tilraun til manndráps og hryðjuverk.
Ástæðan er sú að maðurinn neitar að leyfa lögreglu að gera mynd- og hljóðupptöku af yfirheyrslunni nema hún fallist á að birta upptökuna í heild sinni opinberlega.
John Christian Elden, lögmaður árásarmannsins, segir lögreglumenn hafi reynt að fá skjólstæðing sinn til að tala um árásina í hálftíma í dag en án árangurs. Hann hefur því ekki tekið afstöðu til sakarefnisins eða sagt nokkuð um hvað honum gekk til.
Árásin hófst fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal samkynhneigðra, aðeins nokkrum klukkustundum áður en gleðiganga átti að fara fram í borginni. Göngunni var aflýst. Tveir karlmenn, annar á sextugsaldri en hinn á sjötugsaldri, voru skotnir til bana og 21 særðist, þar af tíu alvarlega. Enginn þeirra særðu er þó í lífshættu.
Norska ríkisútvarpið NRK hefur sagt frá því að árásarmaðurinn hafi verið í sambandi við þekktan íslamskan öfgamann í Noregi. Sá birti nýlega samfélagsmiðlafærslu þar sem hann hvatti til drápa á samkynhneigðum. Árásarmaðurinn sjálfur er norskur ríkisborgari en kom sem barn frá kúrdíska hluta Írans.