Breski blaðamaðurinn Dom Philipps og brasilíski frumbyggjafræðingurinn Bruno Pereira sáust síðast þegar þeir sigldu bát sínum niður ána Itacoai við yfirráðasvæði Javari-frumbyggja við landamæri Perú og Kólumbíu 5. júní.
Nú segir Anderson Torres, dómsmálaráðherra Brasilíu, að óþekktar líkamsleifar hafi fundist á leitarsvæðinu. Þær verði sendar til réttarrannsóknar. AP-fréttastofan segir að brasilíska alríkislögreglan hafi farið með annan tveggja bræðra sem eru í haldi vegna hvarfsins á leitarsvæðið.
Globo-sjónvarpsstöðin í Brasilíu sagði í dag að bræðurnir hefðu játað að hafa myrt mennina tvo og bútað lík þeirra niður. Fjölskylda bræðranna hefur áður neitað því að þeir hafi haft nokkuð með hvarf mannanna tveggja að gera.
Vitni sagði lögreglu að það hefði séð bræðurna hittast við ána örfáum augnablikum eftir að Philipps og Pereira áttu þar leið um, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Önnur vitni sögðust hafa heyrt Pereira lýsa því að annar bræðranna hefði haft í hótunum við sig.
Philipps starfaði sem lausapenni fyrir The Guardian og Washington Post. Hann var að safna gögnum fyrir bók sem hann hafði í smíðum en Pereira stýrði áður Funai, stofnun sem fer með málefni einangraðra frumbyggjaættbálka í Brasilíu.