Salah og liðsfélagar hans þurftu að sætta sig við silfrið í Meistaradeildinni eftir 1-0 tap í úrslitaleiknum þar sem Vinicius Junior skoraði sigurmark Madrídinga.
Liverpool var lengi vel í baráttu um alla þá fjóra titla sem liðinu stóð til boða. Á endanum tók liðið tvo titla, enska deildarbikarinn og FA-bikarinn, en endaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tapaði í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Salah vann þó nokkur einstaklingsverðlaun á tímabilinu, en hann markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar ásam Heung-Min Son. Þá var hann einnig stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar og var meðal annars valinn fótboltamaður ársins af samtökum fótboltablaðamanna á Englandi. Hann var einnig valinn leikmaður tímabilsins af stuðningsmönnum í ensku úrvalsdeildinni.
Hann segir þó að hann myndi fórna öllum þeim einstaklingsverðlaunum sem hann vann á tímabilinu fyrir það eitt að fá að endurtaka úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Real Madrid.
„Að vera heiðraður af stuðningsmönnum og íþróttablaðamönnum á sama tímabilinu er sérstakt og eitthvað sem ég mun aldrei gleyma,“ skrifaði Egyptinn á Twitter-síðu sinni í dag.
„Ég myndi hins vegar fórna öllum þessum einstaklingsverðlaunum fyrir möguleikan á því að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar aftur, en þannig virkar fótboltinn víst ekki.“
Salah birti svo aðra færslu á Tittwer um það bil klukkustund síðar þar sem hann segir að þrátt fyrir það að tímabilið hafi verið langt og strangt þá sé hluti af honum sem óski þess að næsta tímabil hefjist strax á morgun.
„Ég get ekki lýst því í orðum hversu mikið við vildum koma með þennan bikar heim til Liverpool, en við gátum það ekki. Ég get ekki þakkað stuðningsmönnunum nógu mikið fyrir stuðninginn. Þetta hefur verið mjög langt tímabil, en hluti af mér óskar þess að það næsta hefjist á morgun.“