Fótbolti

Argentína er álfumeistari

Atli Arason skrifar
Lionel Messi var valin maður leiksins í leiknum í kvöld á Wembley og var tolleraður af liðsfélögum sínum í leikslok.
Lionel Messi var valin maður leiksins í leiknum í kvöld á Wembley og var tolleraður af liðsfélögum sínum í leikslok. Getty Images

Argentína sendi skýr skilaboð til alheimsins fyrir heimsmeistaramótið í Katar í desember með sigri í uppgjörsleik sigursælustu heimsálfanna í fótbolta, Finalissima. Argentína vann þægilegan 3-0 sigur á Evrópumeisturum Ítalíu.

Finalissima er nokkurskonar ofurbikar, þar sem Evrópumeistarar og Suður-Ameríkumeistarar mætast í uppgjöri bestu landsliða heimsálfanna tveggja. Þetta er í þriðja skipti sem leikið er um þennan bikar sem var áður þekktur sem Artemio Franchi bikarinn. Argentína vann hann árið 1993 eftir sigur á Danmörku og Frakkar unnu bikarinn 1985 eftir sigur á Úrúgvæ.

Argentína tók þátt í viðureigninni sem Suður-Ameríkumeistari ársins 2021 en Ítalir urðu Evrópumeistarar árið 2020, þrátt fyrir að Evrópumótið hafi farið fram árið 2021 vegna heimsfaraldursins. Leikurinn í kvöld fór fram á Wembley og er samstarfsverkefni UEFA, knattspyrnusambands Evrópu og CONMEBOL, knattspyrnusamband Suður-Ameríku.

Lautaro Martinez kom Argentínu yfir á 28. mínútu eftir undirbúning frá Lionel Messi. Martinez bjó svo til seinna mark Argentínu þegar hann lagði knöttinn á Angel Di María sem vippaði boltanum yfir Gianluigi Donnarumma, markvörð Ítalíu.

Argentína var betri aðilinn frá upphafi til enda og leikurinn snerist í raun um hversu stór sigur liðsins yrði. Paulo Dybala kórónaði svo flottan leik Argentínu þegar hann skoraði þriðja og síðasta markið eftir hraða skyndisókn en aftur var það Messi sem bjó markið til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×