Innherji

Ís­lenskir fram­taks­sjóðir klára kaup á Pro­mens fyrir um 15 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Sæplast er á meðal þekktustu útflutningsfyrirtækja landsins, sem á rætur sínar að rekja til Dalvík þar sem það var stofnað árið 1984, og rekur í dag þrjár verksmiðjur. Á Íslandi starfa um 60 manns.
Sæplast er á meðal þekktustu útflutningsfyrirtækja landsins, sem á rætur sínar að rekja til Dalvík þar sem það var stofnað árið 1984, og rekur í dag þrjár verksmiðjur. Á Íslandi starfa um 60 manns.

Tveir íslenskir framtakssjóðir, sem eru nánast alfarið í eigu lífeyrissjóða, fara í sameiningu fyrir kaupum á starfsemi Promens hér á landi en viðskiptin kláruðust fyrr í dag, samkvæmt heimildum Innherja.

Seljandinn er bandaríska fyrirtækjasamsteypan Berry Global, sem hefur verið eigandi meðal annars plastframleiðslufyrirtækjanna Sæplasts og Tempra, en í kaupunum fylgir einnig með starfsemi Promens í fjölmörgum öðrum löndum í Evrópu og eins að hluta í Bandaríkjunum.

Kaupverðið er um 114 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 15 milljarða íslenskra króna, að því er kom fram í árshlutauppgjöri Berry Global í síðasta mánuði, en afar litlar vaxtaberandi skuldir fylgja með í viðskiptunum. Með kaupunum á starfsemi Promens á Íslandi færist eignarhaldið aftur til innlendra fjárfesta eftir að hafa verið hluti af erlendum fyrirtækjasamsteypum í meira en sjö ár.

Það eru framtakssjóðirnir Freyja, sem er í rekstri Kviku eignastýringar, og SÍA IV, sem er í stýringu Stefnis, sem leiða fjárfestinguna en hópur stjórnenda Promens kemur einnig að kaupunum sem eru gerð í gegnum hlutafélagið Rotovia. Að sögn þeirra sem þekkja vel til viðskiptanna mun sjóðurinn SÍA IV fara með meirihluta í félaginu eftir kaupin en eignarhlutur Freyju verður í kringum 30 prósent.

Innherji greindi fyrst frá því undir lok mars á þessu ári að samkomulag hefði náðst um helstu skilmála vegna kaupa íslensku fjárfestanna á hluta af starfsemi Promens. Í byrjun marsmánaðar var meðal annars samrunatilkynningu skilað inn til Samkeppniseftirlitsins.

Samkvæmt upplýsingum Innherja er sú starfsemi Promens sem kaupin ná til að skila um 138 milljónum evra í tekjur á ári, jafnvirði um 18 milljarða íslenskra króna. 

Það er fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hefur verið ráðgjafi kaupenda í viðskiptunum.

Í ársbyrjun 2015 seldu Framtakssjóður Íslands, sem var að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, og Landsbankinn Promens til breska umbúðarisans RPC Group og var heildarvirði samstæðunnar í þeim viðskiptum tæplega 62 milljarðar króna en fyrirtækið rak þá um 40 verksmiðjur í Evrópu, Afríku, Norður-Ameríku og Asíu. Fjórum árum síðar keypti bandaríska félagið Berry Global, sem er skráð á markað vestanhafs og með markaðsvirði upp á rúmlega 8 milljarða Bandaríkjadali, allt hlutafé RPC Group.

Frá þeim tíma hafa Sæplast og Tempra verið hluti af Berry Global en það fyrirtæki starfrækir nærri 300 verksmiðjur um allan heim og er með um 50 þúsund starfsmenn í vinnu.

Sæplast er á meðal þekktustu útflutningsfyrirtækja landsins, sem á rætur sínar að rekja til Dalvíkur þar sem það var stofnað árið 1984, og rekur í dag þrjár verksmiðjur. Á Íslandi þar sem starfa um 60 manns, í New Brunswick í Kanada og á Spáni. Fyrirtækið stækkaði ört með sameiningum og kaupum á öðrum fyrirtækjum í plastiðnaði á sínum tíma. Árið 2007 var nafni framleiðslueiningarinnar á Dalvík breytt í Promens en þegar félagið var keypt af RPC Group 2015 var nafnið Sæplast aftur tekið upp.

Tempra varð hluti af Promens samstæðunni árið 2007 en fyrirtækið, sem er með verksmiðju í Hafnarfirði, er leiðandi á íslenskum markaði í framleiðslu á umbúðum fyrir ferskfiskútflutning og einangrun fyrir byggingariðnað.

Viðræður um möguleg kaup íslensku fjárfestanna á starfsemi Promens hafa staðið yfir í talsverðan tíma en skriður komst á þær undir lok síðasta árs, samkvæmt upplýsingum Innherja.

Framtakssjóðurinn SÍA IV sem kemur að kaupunum er 16 milljarðar króna að stærð en honum var komið á fót á vormánuðum síðasta árs. Sjóðurinn hefur á undanförnum mánuðum fjárfest í íslensku félögunum VAXA Technologies og Good Good. Helstu hluthafar SÍA IV eru Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Frjálsi en lífeyrissjóðirnir fjórir fara samanlagt með rúmlega 53 prósenta hlut.

Framtakssjóðurinn Freyja er hins vegar 8 milljarðar króna að stærð, stofnaður árið 2018, og hefur frá þeim tíma fjárfest í fyrirtækjunum Ísmar, Arctic Adventures og Matorku. Stærstu hluthafar Freyju eru lífeyrissjóðirnir Gildi, Birta, LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna, samanlagt með 75 prósenta hlut.

Samtals hafa framtakssjóðir safnað yfir 50 milljarða króna frá byrjun árs 2021 – hæsta upphæð sem sést hefur frá fjármálahruninu – en sá stærsti er SÍA IV.

Arnar Ragnarsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni, sagði í samtali við Innherja í janúar fyrr á þessu ári að sífellt væru að koma ný fyrirtæki á sjónarsviðið sem ætli sér að sækja fram á erlendum mörkuðum.

„Þetta eru fyrirtæki sem eru að leita að fjármagni til að vaxa og leita til framtakssjóða til að komast á næsta stig í starfsemi sinni. Við erum að sjá mörg ný tækifæri í slíkum fyrirtækjum í bland við rótgrónari rekstrarfyrirtæki sem þurfa vitaskuld áfram að leita eftir tækifærum til að þróast og styrkja sinn rekstur,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×