Innherji

Formaður Birtu segir haghafa vilja stýra sjóðnum úr fjarlægð

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Frá ársfundi Birtu í fyrra.
Frá ársfundi Birtu í fyrra. Birta lífeyrissjóður

Pálmar Óli Magnússon, stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs, segir að á síðasta ári hafi sumir haghafar viljað stýra lífeyrissjóðnum úr fjarlægð. Mikilvægt sé að leyfa þeim sem hafa umboð til ákvarðana að stýra eignum sjóðsins milli ársfunda.

Pálmar Óli Magnússon, stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs, segir að á síðasta ári hafi sumir haghafar viljað stýra lífeyrissjóðnum úr fjarlægð. Mikilvægt sé að leyfa þeim sem hafa umboð til ákvarðana að stýra eignum sjóðsins milli ársfunda.

Þetta kemur fram ávarpi formannsins í ársskýrslu Birtu sem heldur ársfund klukkan fimm í dag.

Pálmar segir að góður árangur hafi náðst Birtu, sem hefur skilað 7,38 prósenta meðalraunávöxtun á síðustu fimm árum, hafi tekist að byggja upp öfluga og sjálfstæða eigna- og áhættustýringu sem hefur frelsi til athafna innan þeirra marka sem stjórn setur í stefnuskjölum.

Pálmar Óli Magnússon, stjórnarformaður Birtu. 

„Þannig á skipulagið að vera, stjórnin mótar stefnu að höfðu samráði við haghafa og hefur svo fyrst og fremst eftirlit með fylgni við stefnuskjölin,“ segir Pálmar.

„Það reynir stundum á þetta skipulag og á síðasta ári vildu sumir haghafar stýra lífeyrissjóðum úr fjarlægð. Það er vel að haghafar láti skoðun sína í ljós en mikilvægt að leyfa þeim sem hafa umboð til ákvarðana að stýra eignum á milli funda.“

Sumar fjárfestingar Birtu á síðasta ári voru umdeildari en aðrar að sögn Pálmars og nefnir hann flugfélagið Play sem dæmi. Flugfélagið var sem kunnugt er harðlega gagnrýnt af ASÍ í aðdraganda skráningar þess á First North-markaðinn fyrir rúmu ári síðan. Var Birta á meðal stærstu þátttakendanna í útboðinu.

Það er vel að haghafar láti skoðun sína í ljós en mikilvægt að leyfa þeim sem hafa umboð til ákvarðana að stýra eignum á milli funda

„Fjárfestingarákvörðunin var undirbúin eins og aðrar fjárfestingar, af starfsfólki sem hefur það hlutverk að ávaxta eignir Birtu í samræmi við stefnuskjölin.“

Ætla má að ummælin um haghafa nái einnig yfir Seðlabankann en stjórnendur Birtu hafa áður gagnrýnt seðlabankastjóra fyrir að hafa sterkar skoðanir á eignarstýringu lífeyrissjóða, einkum hvað varðar kaup á ríkisskuldabréfum í kórónukreppunni.

Bregðast þarf við hækkun skuldbindinga

Meðvindur á eignamörkuðum, eins og Pálmar Óli kemst að orði, hefur bætt tryggingafræðilega stöðu Birtu svo um munar. En í lok árs 2021 samþykkti fjármála- og efnahagsráðuneytið tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga þess efnis að reikna lífslíkur með breyttum hætti.

Sú breyting er gerð á milli ára að nú er stuðst við spá um væntar lífslíkur til framtíðar í stað þess að styðjast eingöngu við reynslu fyrri ára.

„Ef ekki hefði komið til þessa, töldust eignir Birtu 7 prósentum hærri en heildarskuldbindingar. Áhrif nýrra lífslíkutaflna á sjóðinn leiða til 9,9 prósenta aukningar á heildarskuldbindingum og stendur því tryggingafræðileg staða hans í -2,5 prósentum þökk sé góðri ávöxtun síðustu ár,“ segir Pálmar.

Þrátt fyrir ofangreind áhrif eru áfallnar skuldbindingar og eignir í jafnvægi á meðan framtíðarskuldbindingar eru 9 prósentum hærri en núvirði framtíðariðgjalda.

„Við því verður að bregðast. Það er í senn jákvætt að gera megi ráð fyrir að sjóðfélagar lifi lengur en að sama skapi mikilvægt að bregðast við þeim halla sem af því hlýst. Stjórn hyggst bregðast við því að höfðu samráði við haghafa í haust þegar dregið hefur úr lagalegri óvissu að mati stjórnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×