„Við erum að skoða þetta heildstætt. Við erum að skoða ólíka möguleika en það hefur engin ákvörðun verið tekin. Núverandi strategía gengur vel,“ sagði Ólafur Hrafn Höskuldsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, spurður hvort bankinn ætlaði að ráðast í yfirtökur til að ná markmiðum sínum á norðurslóðum.
Eins og fram kom í máli stjórnenda Arion banka í lok síðasta árs vinnur bankinn markvisst að því að auka umsvif sín á norðurslóðum. Skuldabréfaútgáfur Arion banka í erlendri mynt hafa myndað svigrúm til að auka útlán utan landsteina og erlend matsfyrirtæki hafa bent á að bankanum skorti landfræðilega áhættudreifingu.
Stjórnendur bankans hafa mestan áhuga á Færeyjum eins og sakir standa en kortleggja einnig tækifæri í Alaska, Kanada og á Grænlandi.
Í uppgjöri Arion banka kom fram að umsvifin á norðurslóðum hefðu aukist verulega milli ára, eða um 87 prósent. Benedikt Gíslason bankastjóri sagði á uppgjörsfundinum í gær að bankinn væri ánægður með gang mála.
„Á meðan við höldum áfram að finna fyrir áhuga á þjónustu okkar án þess að vera með útibú á svæðinu…það er góð leið til þess að læra meira um þessi hagkerfi og kynnast viðskiptalífinu,“ sagði Benedikt.
„Það sem við komum með að borðinu í löndum eins og Færeyjum og Grænlandi er sú staðreynd að þar eru bankakerfin smá í sniðum og ekki jafn þróuð og á bankakerfið á Íslandi. Þannig að það er möguleiki fyrir okkur að mynda viðskiptasambönd við fyrirtæki sem eru orðin of stór fyrir bankakerfin í þessum löndum.“
Hagnaður Arion banka nam 5,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og arðsemi eiginfjár var 12,7 prósent. Lán til viðskiptavina jukust um 4,3 prósent frá áramótum en hækkunin var aðallega í lánum til fyrirtækja sem hækkuðu um 8 prósent frá árslokum 2021.