Fótbolti

Fékk yfir vel milljarð króna fyrir treyjuna hans Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér sést þessa fræga treyja Diego Maradona frá HM 1986 á uppboðinu.
Hér sést þessa fræga treyja Diego Maradona frá HM 1986 á uppboðinu. AP/Matt Dunham

Keppnistreyjan hans Diego Maradona í leiknum fræga á móti Englendingum á HM í Mexíkó 1986 er seld og það fyrir metfé.

Aldrei áður hefur einhver borgað meira fyrir íþróttatreyju í heiminum en gamla metið átti keppnistreyja bandaríska hafnarboltaleikmannsins Babe Ruth sem seldist fyrir 5,6 milljónir dollara árið 2019 en það gera 733 milljónir íslenskra króna.

Treyjan sem Maradona skoraði mörkin tvö á móti Englendingum í átta liða úrslitum HM 1986, markið með hendinni og markið eftir að hafa sólað alla ensku vörnina frá miðju, seldist á 7,1 milljón punda eða rúmlega einn milljarð og hundrað milljónum betur.

Enski landsliðsmaðurinn Steve Hodge skipti á treyjum við Maradona eftir leikinn. Hann ákvað að selja loks treyjuna 36 árum síðar.

Þegar Maradona lést í nóvember þá sagði Hodge að treyjan væri ekki til sölu. Hann breytti hins vegar um skoðun og það var strax búist við miklum áhuga á henni. Það voru líka menn tilbúnir að borga metfé fyrir hana.

Sotheby uppboðshaldarinn bjóst við að fá á milli fjögurra og sex milljónir punda fyrir treyjuna en hún seldist á mun meira en það.

Hodge er núna 59 ára gamall en hann lék á sínum tíma 24 landsleiki og á tveimur heimsmeistaramótum. Hann skiptist á treyjum við Maradona í leikmannagöngunum á Azteca leikvanginum í Mexíkó í júní 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×