Um miðjan apríl gagnrýndi Lilja söluna í viðtali við Morgunblaðið og sagðist hún ekki vera hlynnt þeirri aðferðafræði sem notuð var við söluna á hlutnum. Þá sagðist hún hafa komið þessum skilaboðum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins.
Í óundirbúna fyrirspurnartímanum á Alþingi í morgun spurði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, hvers vegna ekki hafi verið tekið mark á athugasemdum Lilju. Lilja svaraði að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, viðskiptaráðherra, hafi einnig haft áhyggjur af fyrirkomulaginu.
Alvarleg vanræksla
Í samtali við fréttastofu segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, að henni hafi fundist þessi orð Lilju með algjörum ólíkindum.
„Ég vona að þau séu ekki rétt, því ef þau eru rétt þá er hún að lýsa því að þessir þrír ráðherrar sem höfðu mest um sölu á 50 milljarða króna ríkiseign að segja, hafi öll verið með efasemdir um það sem þau væru að gera,“ sagði Þorbjörg.
Hún segir það vera mjög alvarlega vanrækslu að menn hafi ekki einungis eftir á séð að hlutirnir gætu farið illa, heldur einnig haft grunsemdir um það þegar lagt var af stað.
„Þetta held ég að undirstriki það best af öllu sem við höfum heyrt í þessu máli að það þarf að skoða þátt ráðherranna og það þarf alvarlega að skoða ábyrgð ráðherranna í þessu máli.“