Martin átti mjög flottan leik en hann endaði með 23 framlagsstig eftir að hafa skorað 14 stig, gefið 11 stoðsendingar og stolið einum bolta.
Það var hins vegar skilvirkni hans sem kom honum í sögubækurnar hjá Valencia. Martin átti nefnilega þessar ellefu stoðsendingar en tapaði ekki einum bolta. Því hafði enginn náð hjá Valencia eins og sjá má hér.
Martin var farinn að nálgast metið en Nick Calathes hjá Lokomotiv Kuban Krasnodar var einu sinni með fjórtán stoðsendingar á móti engum töpuðum bolta.
Það var ekki nóg með að íslenski bakvörðurinn passaði upp á boltann því hann klikkaði bara á tveimur skotum allan leikinn, nýtti 5 af 7 skotum utan af velli og setti niður bæði vítin sín.
Martin er með 8,8 stig og 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í nítján leikjum sínum í EuroCup á þessari leiktíð. Hann er alls með 98 stoðsendingar og bara 34 tapaða bolta sem gera 2,9 stoðsendingar á hvern tapaðan.