Innherji

Félag Bjarna bætti verulega við hlut sinn í Fáfni Offshore í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Polarsyssel, sem var sjósett í mars 2014, kostaði rúmlega fimm milljarða króna.
Polarsyssel, sem var sjósett í mars 2014, kostaði rúmlega fimm milljarða króna. Mynd/Havyard

Sjávarsýn ehf., fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, og Hlér ehf., sem er í eigu Guðmundar Ásgeirssonar, bættu verulega við eignarhluti sína í Fáfni Offshore á síðasta ári þegar félögin keyptu út framtakssjóðinn Horn II og þrjá aðra hluthafa. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Fáfnis Offshore.

Tekjur Fáfnis Offshore námu 870 milljónum króna í fyrra og stóðu nánast í stað milli ára. Félagið rekur eitt skip, Polarsyssel, sem veitir Sýslumanninum á Svalbarða þjónustu samkvæmt langtímasamningi sem gildir út árið 2024. Reksturinn skilaði um 111 milljóna króna hagnaði á síðasta ári og um 255 milljónum árið 2020.

„Tekjulega séð er þetta mjög stöðugur rekstur. Þetta eru samningsbundnar tekjur sem verða hvorki meiri né minni næstu þrjú ár,“ segir Bjarni Ármannsson í samtali við Innherja.

Polarsyssel gegnir margvíslegu hlutverki fyrir sýslumannsembættið, þar á meðal landhelgisgæslu og birgðaflutningi innan eyjaklasans. Þá hefur skipið sinnt auknu þjónustuhlutverki við Háskólann í Tromsö, sem er með útibú á Svalbarða, um notkun Polarsyssel við rannsóknarverkefni og Bjarni segir að vaxandi umferð á hafsvæðinu fylgi vaxandi þörf fyrir sjúkraflutninga eða aðstoð við skip í vanda.

Stöðugur rekstur hefur gert félaginu kleift að greiða niður skuldir jafnt og þétt. Skuldirnar nema nú um 2,3 milljörðum króna samanborið við 3,5 milljarða, miðað við núverandi gengi, í lok árs 2016. Á sama tímabili hefur eigið féð vaxið úr 700 milljónum króna í 1,3 milljarða.

Í byrjun síðasta árs var Akur fjárfestingar, sem er í eigu tíu lífeyrissjóða, Íslandsbanka og VÍS, stærsti hluthafi Fáfnis með rúmlega 37 prósenta hlut og Horn II, sem var í stýringu Landsbréfa, var næststærsti hluthafinn með tæp 26 prósent. 

Horni II var slitið síðla árs 2021 og í viðtali við Innherja fyrr í vetur sögðu stjórnendur framtakssjóðsins, sem skilaði 25 prósenta árlegri ávöxtun, að Fáfnir hefði verið eina fjárfestingin sem skilaði ekki hefði ekki gengið sem skyldi.

Eignarhluturinn var seldur til Sjávarsýnar og Hlés en auk þess keyptu félögin tæpan 8 prósenta hlut norsku skipasmíðastöðvarinnar Havyyard og 2 prósenta hlut sjóðsins Öndvegisbréfa, sem er einnig í stýringu Landsbréfa. 

Eftir kaupin hefur Sjávarsýn stækkað hlut sinn úr 15 prósentum í rúm 37 prósent og Hlér, sem átti 11 prósent, fer nú með 25 prósenta hlut. Sjávarsýn er með lítillega stærri hlut en Akur og er því stærsti hluthafi félagsins.

Ársreikningur Horns II er ekki orðinn aðgengilegur en í reikningi félagsins fyrir árið 2020 var hluturinn í Fáfni Offshore bókfærður á 123 milljónir króna. Ársreikningur Öndvegisbréfa fyrir síðasta ár gefur til kynna að söluverðið hafi verið í kringum þá upphæð. 

Öndvegisbréf, sem áttu 2,45 prósent, seldu hlutinn fyrir 11 til 16 milljónir króna sem verðmetur á bilinu Fáfni Offshore á 450 til 650 milljónir króna. Samkvæmt því var fjórðungshlutur Horns II seldur á bilinu 120 til 170 milljónir. 

Polarsyssel, sem var sjósett í mars 2014, kostaði rúmlega fimm milljarða króna. Fáfnir Offshore skrifaði einnig undir kaupsaming á öðru stærra skipi sem var í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Havyyard og átti að bera heitið Fáfnir Viking. 

Vonir stóðu til um að félagið myndi reka 3 eða 4 skip sem þjónustuðu olíu- og gasborpalla á norðlægum slóðum. Hav­yard rifti hins vegar samningnum en afhendingu skipsins hafði verið seinkað tvívegis sökum verkefnaskorts hjá íslenska fyrirtækinu sem rekja mátti til mikillar lækkunar olíuverðs. Skipið var á endanum selt til útgerðar í Kanada.

Fáfnir Offshore var í heild sinni verðmetið á 3,7 til 4 milljarða króna í bókum Horns II og Akurs í lok árs 2014 en eins og áður kom fram er verðmatið nær hálfum milljarði í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×