Körfubolti

Hrafn Kristjánsson segir skilið við körfuboltann

Atli Arason skrifar
Hrafn Kristjánsson tekur ekki fleiri leikhlé í bráð.
Hrafn Kristjánsson tekur ekki fleiri leikhlé í bráð. vísir/þórdís

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Álftanes, tilkynnti í gær að hann ætlaði að hætta í körfuboltaþjálfun og leggja spjaldið á hilluna.

Hrafn fór með Álftanes alla leið í úrslitaleik í umspili um laust sæti í efstu deild þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Hetti frá Egilsstöðum.

Í tilkynningu sem Hrafn sendi frá sér segir hann að körfubolti hefur heltekið líf sitt síðustu 37 ár. Hrafn hefur verið þjálfari í 30 ár og leikmaður þar á undan. Hrafn varð tvívegis Íslandsmeistari, sem leikmaður og síðar sem þjálfari. Í bæði skiptin með uppeldisfélagi sínu KR. Þrisvar sinnum varð Hrafn bikarmeistari, tvisvar með Stjörnunni og einu sinni með KR. Hrafn var kosinn þjálfari ársins árið 2011.

„Í raun er það svo að ég á körfubolta að þakka nánast alla þá staði sem ég hef farið til og allt það yndislega fólk sem ég hef kynnst á þessum tíma. Fyrir það er ég ævarandi þakklátur,“ segir Hrafn í tilkynningu sinni á Facebook.

„Nú er kominn tími til að ég söðli um, einbeiti mér að öðrum verkefnum og styðji betur við yndislegu konuna mína og fjölskyldu. Það er sárt að hafa ekki náð að klára síðasta áfangann með Álftanesi en ég skil við stoltur af stöðu liðsins og möguleikum. Ég hefði hvergi annars staðar viljað enda þessa vegferð mína en í Forsetahöllinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×