Erlent

Takmarka aðgengi að matarolíu vegna stríðsins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Búist er við því að birgðir Bretlands af sólblómaolíu klárist á næstu mánuðum.
Búist er við því að birgðir Bretlands af sólblómaolíu klárist á næstu mánuðum. Jason Dean/Getty

Matvöruverslanir í Bretlandi hafa takmarkað aðgengi viðskiptavina sinna að matarolíu. Mikill meirihluti sólblómaolíu landsins kemur frá Úkraínu.

Verslanir Tesco leyfa viðskiptavinum sínum að kaupa aðeins þrjár flöskur af olíu í einu en verslanir Waitorse og Morrisons bjóða einungis upp á tvær flöskur í hverri ferð. BBC greinir frá þessu.

Fram kemur að þetta sé einungis tímabundið til þess að sjá til þess að allir geti fengið olíu. Ólífuolía, repjuolía og sólblómaolía falla allar undir reglur verslananna.

Búist er við því að birgðir landsins af sólblómaolíu klárist á næstu mánuðum.

„Verslunarmenn eru að vinna í því að bæta í framleiðslu á öðrum matarolíum til að lágmarka áhrifin á neytendur,“ segir Tom Holder, starfsmaður samtaka verslana í Bretlandi.

Matvælaframleiðendur í Bretlandi sem notast við sólblómaolíu við framleiðslu hafa lýst yfir áhyggjum sínum á skortinum. Framleiðendur sem notast við olíuna mega notast við annars konar olíu án þess að breyta merkingum sínum á meðan aðgengið er takmarkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×