Erlent

Madeleine McCann: Foreldrarnir hafa ekki tapað voninni

Árni Sæberg skrifar
Kate og Gerry McCann foreldrar Madeleine á blaðamannafundi í Berlín árið 2007.
Kate og Gerry McCann foreldrar Madeleine á blaðamannafundi í Berlín árið 2007. Vísir/getty

Foreldrar Madeleine McCann, sem hvarf árið 2007, segjast ekki hafa tapað voninni á að endurheimta dóttur sína. Þau segjast jafnframt fagna því að manni hafi formlega verið veitt staða sakbornings.

Kate og Gerry McCann hafa gefið út yfirlýsingu í tilefni þess að þýskum manni hafi formlega verið veitt réttarstaða sakbornings í tengslum við hvarf dóttur þeirra árið 2007. Yfirlýsinguna gáfu þau út á Facebook-síðunni Official Find Madeleine Campaign sem haldið hefur verið úti um árabil.

Madeleine hvarf þegar hún var aðeins þriggja ára gömul á ferðalagi með  foreldrum sínum í Portúgal. Nú hefur hinum þýska Christian Brückner verið veitt staða svokallaðs „arguido“ í Portúgal. Hann liggur þar með formlega undir grun í máli Madeleine, án þess þó að hafa verið kærður. Þessu fagna foreldrar hennar.

Lögreglan í Portúgal hefur ekki fullyrt að Brückner sé grunaður um að hafa banað Madeleine og er málið rannsakað sem mannshvarf. Foreldrar hennar hafa aldrei gefið upp vonina á því að finna dóttur sína á lífi.

„Þó líkurnar séu litlar höfum við aldrei gefið upp vonina á því að Madeleine sé enn á lífi og að við munum sameinast henni á ný,“ segir í tilkynningu foreldranna.

Lögreglan í Þýskalandi hefur þó gefið út að hún telji Brückner hafa banað Madeleine.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×