Fótbolti

Sveindís byrjar á Nývangi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir leikur líklega sinn stærsta leik á ferlinum í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir leikur líklega sinn stærsta leik á ferlinum í dag. getty/ANP

Sveindís Jane Jónsdóttir er í byrjunarliði Wolfsburg sem mætir Barcelona á Nývangi í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þetta er fimmti leikurinn í röð sem Sveindís byrjar fyrir Wolfsburg. Í síðasta leik liðsins í Meistaradeildinni lagði hún upp bæði mörkin í 2-0 sigri á Arsenal. Wolfsburg vann einvígið, 3-1 samanlagt. Í þessum fjórum leikjum hefur Sveindís lagt upp samtals fjögur mörk.

Sveindís er á hægri kantinum hjá Wolfsburg, Alexandra Popp á þeim vinstri og fremst er Tabea Wassmuth. Fyrir aftan hana er Svenja Huth.

Uppselt er á leikinn á Nývangi í dag, líkt og í síðasta heimaleik Barcelona í Meistaradeildinni sem var gegn erkifjendunum í Real Madrid. Í samtali við Vísi á dögunum sagðist Sveindís afar spennt að spila fyrir framan níutíu þúsund manns á hinum sögufræga Nývangi.

Ljóst er að Wolfsburg bíður afar erfitt verkefni í dag en Barcelona hefur unnið alla 38 leiki sína á tímabilinu með markatölunni 190-13.

Wolfsburg hefur einnig gert það gott í vetur, er efst í þýsku úrvalsdeildinni og komið í bikarúrslit auk þess að vera í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Wolfsburg hefur tvisvar sinnum unnið Meistaradeildina (2013 og 2014) og þrisvar sinnum tapað úrslitaleik keppninnar (2016, 2018, 2020).

Leikur Barcelona og Wolfsburg hefst klukkan 16:45. Hægt verður að fylgjast með honum í beinni útsendingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×