Fótbolti

Freyr framlengir við Lyngby

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Freyr Alexandersson og Sævar Atli Magnússon í góðum gír hjá Lyngby. Sá fyrrnefndi hefur nú framlengt samningi sínum til ársins 2025.
Freyr Alexandersson og Sævar Atli Magnússon í góðum gír hjá Lyngby. Sá fyrrnefndi hefur nú framlengt samningi sínum til ársins 2025. Mynd/Lyngby

Danska B-deildarliðið Lyngby hefur ákveðið að framlengja samningi sínum við íslenska þjálfarann Freyr Alexandersson. Nýi samningurinn gildir til ársins 2025.

Félagið greindi frá þessu á heimasíðu sinni, en Freyr tók við liðinu í júní á seinasta ári. Undir stjórn Freys lenti liðið í öðru sæti deildarinnar áður en henni var skipt upp. Liðið fékk 43 stig í 22 leikjum.

Liðið situr enn í öðru sæti efri hluta deildarinnar nú þegar þrjár umferðir eru eftir og er því á góðri leið með að tryggja sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni.

Í tilkynningu frá Lyngby kemur fram að Freyr hafi gert frábæra hluti með liðið og að nú sé það í þeirra eigin höndum að koma sér upp í deild þeirra bestu í Danmörku.

„Freyr og starfsfólkið hans hafa gert virkilega góða hluti með liðið. Ef við skoðum úrslitin erum við að taka að meðaltali tæplega tvö stig í leik í fyrstu deildinni og erum nú á þeim stað sem við viljum vera - með örlögin í okkar eigin höndum,“ segir í tilkynningunni.

„Auk þess höfum við einnig fengið að sjá nokkra af okkar eigin ungu leikmönnum fá tækifærið undir hans stjórn og við erum mjög ánægð með það að Freyr verði áfram við stjórnvölin hjá liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×