Fótbolti

„Leikur sem getur sett okkur í lykilstöðu fyrir haustið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára nálgast Agla María Albertsdóttir fimmtíu landsleiki fyrir Íslands hönd.
Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára nálgast Agla María Albertsdóttir fimmtíu landsleiki fyrir Íslands hönd. stöð 2 sport

Agla María Albertsdóttir segir að íslenska kvennalandsliðið gangi sátt frá borði eftir 0-5 sigurinn á Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM í fyrradag.

„Mér fannst við gera þetta mjög fagmannlega, að klára þetta svona sannfærandi. Við erum ánægðar með að hafa unnið og stefnum á sigur í næsta leik líka,“ sagði Agla María í samtali við blaðamann á hóteli íslenska liðsins í Prag í dag.

Næsti leikur Íslands er gegn Tékklandi í Teplice á þriðjudaginn. Með sigri í þeim leik er ljóst að íslenska liðið verður á toppi riðilsins fyrir síðustu tvo leikina í undankeppninni.

„Það verður klárlega miklu erfiðari leikur og allt öðruvísi. Þær eru með hörkugott varnarlið myndi ég segja en á sama tíma þurfa þær að sækja sem hentar okkur vel. Þetta verður hörkuleikur. Þetta eru jöfn lið,“ sagði Agla María.

Klippa: Viðtal við Öglu Maríu

Þetta verður þriðji leikur Íslands og Tékklands á hálfu ári. Íslendingar unnu Tékka, 4-0, á Laugardalsvellinum í fyrri leiknum í undankeppni HM í október á síðasta ári og unnu svo 1-2 sigur á SheBelieves mótinu í Bandaríkjunum í febrúar. Þótt Ísland hafi unnið stórsigur á Tékklandi síðasta haust gáfu úrslitin ekki alveg rétta mynd af leiknum.

„Þetta er mjög sterkt lið og þrátt fyrir að við höfum unnið þennan leik voru þær mjög öflugar í honum. En ef maður horfir nokkur ár aftur í tímann gerðum við tvisvar jafntefli við þær og það voru tveir hörkuleikir. Þær eru með mjög svipað lið og þá,“ sagði Agla María.

„Þetta er leikur sem getur sett okkur í lykilstöðu fyrir haustið og við stefnum klárlega á að koma okkur í hana.“

Allt viðtalið við Öglu Maríu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Þar ræðir hún einnig um fyrstu mánuðina í atvinnumennsku en hún gekk í raðir Häcken í Svíþjóð í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×