Glódís Perla Viggósdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eru báðar í byrjunarliði Íslands og leika sinn hundraðasta landsleik í dag.
Sif Atladóttir byrjar í stöðu hægri bakvarðar og Hallbera Gísladóttir er vinstra megin. Glódís og Guðrún Arnardóttir eru miðverðir.
Á miðjunni eru Dagný, fyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir. Sara, sem er í fyrsta sinn í landsliðinu eftir barnsburð, byrjar á varamannabekknum.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir eru á köntunum og Berglind Björg Þorvaldsdóttir fremst.
Ísland er í 2. sæti undankeppninnar með níu stig eftir fjóra leiki, tveimur stigum á eftir Hollandi sem er á toppi riðilsins með ellefu stig. Tékkland er í 3. sætinu með fimm stig og Hvíta-Rússland í því fjórða með fjögur stig eftir þrjá leiki.
Leikur Hvíta-Rússlands og Íslands hefst klukkan 16:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.