Fótbolti

AC Milan hafði áhuga á Svövu en hún gæti ekki verið ánægðari með að hafa valið Brann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir fagnar marki sínu í 4-0 sigrinum á Tékklandi í undankeppni HM síðasta haust.
Svava Rós Guðmundsdóttir fagnar marki sínu í 4-0 sigrinum á Tékklandi í undankeppni HM síðasta haust. vísir/Hulda Margrét

Eftir erfiða tíma í Frakklandi þar sem hún fékk nánast ekkert að spila nýtur Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í fótbolta, lífsins hjá Brann í Noregi.

Svava gekk í raðir Bordeaux í Frakklandi í janúar 2021 en fékk nánast engin tækifæri þar, sérstaklega eftir að nýr þjálfari tók við liðinu um sumarið. Í sumum leikjum var hún ekki einu sinni í leikmannahópi Bordeaux.

Svava fékk sig lausa frá Bordeaux í desember 2021 og í febrúar gekk hún í raðir Noregsmeistara Brann. Hún hefur farið vel af stað með Brann og skorað tvö mörk fyrir liðið sem er með fullt hús stiga á toppi norsku úrvalsdeildarinnar.

„Þetta er búið að vera frá­bært. Við erum með mjög gott lið og það hefur gengið mjög vel hjá okk­ur í byrj­un,“ sagði Svava á blaðamanna­fundi ís­lenska landsliðsins í dag. Ísland mætir Hvíta-Rússlandi í Belgrad í Serbíu á fimmtudaginn og svo Tékklandi í Teplice á þriðjudaginn eftir viku. Leikirnir eru í undankeppni HM 2023.

„Það er mjög góð til­finn­ing og ég gæti ekki verið ánægðari með þessa ákvörðun að fara til Noregs og til Brann,“ sagði Svava. Hún hefur reynslu úr norsku deildinni eftir að hafa leikið með Røa 2018. Hún segir að Brann sé miklu sterkara lið en Røa og norska deildin sé sömuleiðis öflugri en fyrir fjórum árum.

„Norska deild­in er orðin stærri og það eru mikl­ir pen­ing­ar í þessu núna,“ sagði hin 26 ára Svava.

Í ársbyrjun var hún meðal annars orðuð við AC Milan. Svava viðurkennir að ítalska liðið hafi sýnt henni áhuga en ekkert hafi orðið úr því.

„Það var áhugi frá nokkr­um lönd­um og áhugi m.a. frá AC Mil­an en ekk­ert sem fór eitt­hvað lengra,“ sagði Svava.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×