Fótbolti

Bannaði þjálfaranum að velja Jón Dag

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir AGF.
Jón Dagur Þorsteinsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir AGF. Getty/Lars Ronbog

„Ekki endirinn sem ég hefði kosið en skítt með það, svona er fótboltinn,“ skrifar Jón Dagur Þorsteinsson á Instagram en hann hefur leikið sinn síðasta leik fyrir danska knattspyrnufélagið AGF í Árósum.

Íþróttastjóri AGF, gamli Liverpool-bakvörðurinn Stig Inge Björnebye, hefur tekið þá ákvörðun að Jón Dagur fái ekki að spila fleiri leiki fyrir liðið.

Ástæðan er sú að Jón Dagur hefur ákveðið að söðla um og yfirgefa Danmörku í sumar. Þessi 23 ára landsliðsmaður kom til AGF frá Fulham sumarið 2019 en samningur hans við félagið rennur út í sumar og hann ákvað að gera ekki nýjan samning við AGF.

Enn níu leikir eftir

AGF á hins vegar enn eftir níu deildarleiki fram að sumarfríi sem hefst 22. maí. Liðið hefur þó að litlu að keppa og því taldi Björnebye heillavænlegast að Jón Dagur spilaði ekki meira en að aðrir leikmenn, sem yrðu áfram hjá félaginu, spiluðu í hans stað. Þjálfarinn David Nielsen fær engu um það ráðið og Jón Dagur lék því ekki í 0-0 jafntefli við Vejle í gær.

„Þetta er ákvörðun félagsins og þar með ákvörðun sem ég hef tekið. Frá íþróttalegu sjónarmiði þá vildi David gjarnan hafa Jón með en þetta er pólitísk ákvörðun sem ég tók til að þróa félagið áfram,“ sagði Björnebye við bold.dk.

„Ég taldi að í ljósi samningsstöðu Jóns þá hefði hann staðið í vegi fyrir yngri leikmönnum okkar á móti Vejle,“ sagði Björnebye.

Kvaddi á Instagram

Jón Dagur skrifaði svo kveðju á Instagram-síðu sína og undirstrikaði að komið væri að leiðarlokum.

„Þetta var nú meira ferðalagið, takk fyrir allt. Ekki endirinn sem ég hefði kosið en skítt með það, svona er fótboltinn. Það var ánægjulegt að spila fyrir ykkur. Stórkostlegir stuðningsmenn. Afsakið nokkur rugluð augnablik hahahaha. Gangi ykkur vel í framtíðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×