Lítið er nú eftir af starfsemi GAMMA en eignir í stýringu félagsins lækkuðu úr 88 milljörðum í 27,5 milljarða í árslok 2021 – þegar mest lét voru eignir í stýringu um 140 milljarðar á árinu 2017 – og starfsmenn þá aðeins þrír talsins. Á þessu ári hafa síðan sex sjóðir sem voru í rekstri GAMMA verið fluttir til Kviku eignastýringar.
Í júní í fyrra var starfsleyfi GAMMA til reksturs verðbréfasjóða, fjárfestingarráðgjafar og eignastýringar fellt niður að beiðni félagsins. Í dag tekur starfsleyfið aðeins til reksturs og áhættustýringar sérhæfðra sjóða.
Umsýslu- og árangurstengdar þóknanir jukust um 55 prósent á síðasta ári og námu samtals 492 milljónum króna. Rekstrarkostnaður lækkaði á sama tíma um 330 milljónir og var 241 milljón króna.
Bókfært eigið fé GAMMA var rúmlega 1.593 milljónir króna í árslok og eiginfjárhlutfall félagsins því um 88 prósent.
Á meðal fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA sem var slitið á liðnu ári var Almenna leigufélagið eignarhaldssjóður (ALE) en leigufélagið var selt snemma árs 2021 fyrir um 11 milljarða króna til eignarhaldsfélagsins Langisjór.
Haustið 2020 ákvað stjórn GAMMA að afturkalla kaupaukagreiðslur upp á tugi milljóna króna til ellefu fyrrverandi starfsmanna fyrirtækisins sem voru samþykktar haustið 2018 og í ársbyrjun 2019 en átti eftir að greiða að hluta út. Þá fór stjórnin einnig fram á það við tvo af þessum sömu starfsmönnum, þá Valdimar Ármann, fyrrverandi forstjóra GAMMA, og Ingva Hrafn Óskarsson, sem var sjóðstjóri hjá félaginu, að þeir endurgreiddu samtals um 12 milljónir króna vegna kaupauka sem höfðu þegar verið greiddir til þeirra á árunum 2018 og 2019.
Var það mat stjórnar GAMMA að ekki væri rétt að standa við þær greiðslur þegar í ljós kom að afkoma félagsins reyndist mun lakari en áætlanir þáverandi stjórnenda GAMMA gerðu ráð fyrir.
Ákvörðun stjórnar GAMMA að krefjast þess að Valdimar Ármann og Ingvi Hrafn endurgreiði félaginu þá fjármuni sem þeir fengu í kaupauka á sínum tíma kom til vegna vegna reksturs fagfjárfestasjóðsins Novus, sjóðs í stýringu GAMMA og eiganda Upphafs fasteignafélags. Sjóðfélagar Novus töpuðu háum fjárhæðum þegar upplýst var um það haustið 2019 að eignir Upphafs voru stórlega ofmetnar og var virði félagsins lækkað úr 5,2 milljörðum í 40 milljónir.
Í nýbirtum ársreikningi GAMMA kemur fram að tveir af þessum ellefu fyrrverandi starfsmönnum hafi stefnt félaginu til greiðslu frestaðs hluta kaupauka vegna árangurs í starfi árið 2017, sem félagið hafði lýst yfir að yrði ekki greiddur. Dómkröfur í málunum eru samtals um 2,3 milljónir króna.
Í síðustu viku var greint frá því að héraðsdómur Reykjavíkur hefði síðan komist að þeirri niðurstöðu að annar þessara fyrrverandi starfsmanna eigi að fá greiddar kaupaukagreiðslur sem höfðu verið samþykktar á árunum 2018 og 2019 vegna afkomu GAMMA á árunum þar á undan.
Þegar gengið var endanlega frá kaupum Kviku á öllu hlutafé GAMMA í mars 2019 var kaupverðið áætlað 2,54 milljarðar. Fyrir félagið greiddi Kvika 839 milljónir í reiðufé en afgangurinn var í formi hlutdeildarskírteina í sjóðum GAMMA og árangurstengdra þóknanatekna þegar langtímakröfur á sjóði GAMMA innheimtast. Sökum lakari afkomu GAMMA en áætlanir gerðu ráð fyrir tók kaupverðið hins vegar enn meiri breytingum til lækkunar.