Sport

Sara komin alla leið upp í þriðja sætið eftir leiðréttingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir æfir nú hjá Training Think Tank í Georgíu fylki í Bandaríkjunum.
Sara Sigmundsdóttir æfir nú hjá Training Think Tank í Georgíu fylki í Bandaríkjunum. Youtube/Training Think Tank

Átta manna úrslitin verða bara betri og betri fyrir íslensku CrossFit-konuna Söru Sigmundsdóttur sem stimplaði sig aftur í hóp þeirra bestu um síðustu helgi.

Sara varð fyrst sett í fjórða sætið í Evrópu en eftir að CrossFit samtökin fóru betur yfir tölurnar og æfingar keppenda þá var Sara færð upp um eitt sæti.

Sara tekur þar með sæti hinna norsku Jacqueline Dahlström og endar því þriðja. Norska stelpan féll niður um eitt sæti.

Instagram

Sara er því efst á Norðurlöndum en aðeins Pólverjinn Gabriela Migala og Írinn Emma McQuaid eru nú fyrir ofan hana.

Sara er síðan í sjöunda sætinu yfir allan heiminn. Auk Evrópubúanna eru fyrir ofan Söru þær Tia-Clair Toomey, Kara Saunders, Mallory O'Brien, Alexis Raptis og Danielle Brandon.

Sólveig Sigurðardóttir endaði í áttunda sæti í Evrópu og í átjánda sæti í öllum heiminum. Þetta er hennar besti árangur og hefur vakið athygli margra.

Þuríður Erla Helgadóttir endaði þriðja af íslensku stelpunum en hún varð í fimmtánda sæti í Evrópu og í 41. sæti í heiminum.

Katrín Tanja Davíðsdóttir endaði í 22. sæti í Evrópu og í 56. sæti í heiminum.

Fimmta af íslensku stelpunum var síðan Oddrún Eik Gylfadóttir sem endaði í 51. sæti í Evrópu og í 173. sæti í heiminum.

Þessar fimm verða allar með í undanúrslitunum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×