Fjallað var um það fyrr í þessum mánuði að Efling hafi samið við Andra Sigurðsson, sem meðal annars er þekktur fyrir aðkomu sína að Jæja-hópnum, um vefsíðugerð. Kostnaður við samninginn er sagður hafa hlaupið á mörgum, ef ekki tugum, milljóna króna.
Samkvæmt heimildum fréttastofu ýjaði Agnieszka Ewu Ziółkowska, sitjandi formaður Eflingar, að því á fundi trúnaðarráðs í febrúar að ekki hafi verið staðið að samningum við Andra með lögmætum hætti og að hún, sem formaður Eflingar, væri að „rannsaka“ málið.
Viðar Þorsteinsson segir að Agnieszka reyni enn að gera störf hans tortryggileg. Það hafi hún gert um nokkra hríð. Hann segir að endurskoðunafyrirtæki, sem vann fyrri athugun að beiðni Agnieszku, hafi staðfest að fyrirtækið geri engar athugasemdir við viðskiptin í stjórnartíð Viðars.
„Þrátt fyrir þetta hefur stjórn Eflingar undir forystu Agnieszku nú í annað sinn látið hefja gerð úttekar um störf Viðars vegna þessara viðskipta. Er Viðari neitað um upplýsingar, andmælarétt og eðlilega aðkomu að þessari úttekt.
Sama var uppi á teningnum við gerð fyrri úttektar um störf Viðars, sem sálfræðistofan Líf og sál vann að beiðni stjórnar Eflingar,“ segir í tilkynningu frá Baráttulistanum, sem er listi framboðs Sólveigar Önnu Jónsdóttur en hún var aftur kjörin formaður stéttarfélagsins í febrúar síðastliðnum.
Viðar krafði Agnieszku um afsökunarbeiðni fyrr í mánuðinum vegna ásakananna um fjármálamisferli og lögbrot í störfum hans sem framkvæmdastjóri. Því hefur hún neitað, enda segist hún bera ríka skyldu til þess að fylgjast með fjármálum Eflingar sem formaður félagsins.
Oddur Ástraðsson lögmaður hefur nú boðað Viðar á fund en hann hefur með höndum gerð lögfræðilegrar úttektar á samstarfi kynningardeildar félagsins við vefhönnunarfyrirtækið. Viðar kveðst hafa óskað eftir því að fá að svara spurningum lögmannsins skriflega en hann segir Odd neita að veita upplýsingar um hverjar spurningarnar séu, eða verði, á fundinum.
„Þegar Viðar óskaði eftir því að fá aðgang að heildardrögum væntanlegrar úttektar til að koma að sínum sjónarmiðum og andmælum svaraði Oddur: „Það kemur ekki til álita að verða við kröfum þínum um aðgang að úttektinni áður en henni er skilað til stjórnar Eflingar.“
Oddur hefur jafnframt hunsað beiðni Viðars um að Efling greiði lögfræðikostnað hans við að verjast ásökunum, sem fjármagnaðar eru úr sjóðum félagsmanna Eflingar,“ segir enn fremur í tilkynningu Baráttulistans.