Klinkið

Hér er ríkið, um ríkið, frá ríkinu, til ríkisins

Ritstjórn Innherja skrifar
Edda Sif Pind Aradóttir er framkvæmdastjóri Carbfix.
Edda Sif Pind Aradóttir er framkvæmdastjóri Carbfix.

Framkvæmdastjóri íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Carbfix ritaði grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem hún óskar eftir mótframlagi frá íslenska ríkinu svo félagið geti sótt sér frekari ríkisstyrki í öðrum löndum.

Framkvæmdastjórinn óskar eftir því í greininni að umsóknir fyrirtækisins til erlendra sjóða í eigu ríkja, séu styrktar af íslenska ríkinu í formi mótframlags sem hún segir skipta sköpum til að erlendar umsóknir um ríkisfé til handa Carbfix verði samþykktar. Hún kallar eftir því að komið verði á almennu kerfi, á vegum íslenska ríkisins, um stuðning við sambærilegar erlendar styrkumsóknir.

Engin sérstök tilraun er hins vegar gerð til að útskýra það af hverju mótframlagið þarf að koma frá ríkinu. Í tilfelli Carbfix er fyrirtækið nú þegar í eigu Orkuveitunnar, sem er aftur í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Orkuveitan skilaði 12 milljarða króna hagnaði á síðasta ári.

Eðlilega spyrja margir sig hvort ekki sé með réttu lagi að mótframlagið sé í formi fjárfestingar? Til að mynda frá eigandanum? Eða einkaaðilum? Nú, eða í formi tekna.

Carbfix hefur það að markmiði að farga einum milljarði tonna af koldíoxíð á sem allra stystum tíma með því að binda það í bergi. Markmiðið er göfugt og framtíðin virðist björt ef marka má orð framkvæmdastjórans. Ef eigandinn hefur trú á verkefninu er ekki eftir neinu að bíða.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×