Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - ÍBV 29-32 | Eyjasigur á klaufskum Mosfellingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði tíu mörk í Mosfellsbænum.
Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði tíu mörk í Mosfellsbænum. vísir/hulda margrét

ÍBV vann þriggja marka sigur á Aftureldingu, 29-32, í Mosfellsbænum í 18. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Munurinn á liðunum lá helst í sóknarmistökum. Mosfellingar töpuðu boltanum sextán sinnum en Eyjamenn aðeins sex sinnum. ÍBV tók þar af leiðandi mun fleiri skot og skoraði sjö hraðaupphlaupsmörk gegn tveimur. Engu skipti þótt Afturelding væri með betri skotnýtingu.

Þá skipti breiddin sköpum í leiknum í kvöld. Þrátt fyrir að Rúnar Kárason hafi ekkert komið við sögu vegna meiðsla spilaði ÍBV á fleiri leikmönnum en Afturelding sem notaði aðeins níu útileikmenn í leiknum.

Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði tíu mörk fyrir ÍBV og Friðrik Hólm Jónsson sex. Þrándur Gíslason Roth skoraði sex mörk fyrir Aftureldingu og Birkir Benediktsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson sitt hvor fimm mörkin.

Það var langt frá síðasta leik liðanna og það sást á köflum í kvöld. Mosfellingar voru sérstaklega ryðgaðir og töpuðu boltanum níu sinnum í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 14-16, Eyjamönnum í vil.

Leikurinn var afar jafn framan af og liðin héldust í hendur. Þrándur fór mikinn og skoraði fjögur mörk á skömmum tíma. Afturelding komst í 12-10 og virtist vera komin með ágætis tök á leiknum. En raunin var önnur.

Eyjamenn skoruðu fjögur mörk í röð og sex af síðustu átta mörkum fyrri hálfleiks. Sóknarleikur ÍBV gekk vel og varnarleikurinn skánaði mikið eftir að Ásgeir Snær Vignisson var settur fyrir framan í 5-1 vörn. Markvarslan var sama og engin hjá báðum liðum í fyrri hálfleik.

ÍBV var með frumkvæðið framan af seinni hálfleik en Afturelding jafnaði tvisvar, í 19-19 og 20-20. ÍBV svaraði með þremur mörkum í röð og náði völdunum á nýjan leik. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, tók tvö leikhlé með þriggja mínútna millibili en ekkert gekk hjá heimamönnum.

Þeir héldu áfram að kasta boltanum frá og fá á sig klaufalega ruðninga, jafnvel þótt þeir væru einum eða tveimur mönnum fleiri. Þá var vörn Mosfellinga slök. Andri Sigmarsson Scheving átti ágætis spretti í markinu en það dugði ekki til.

Eyjamenn voru skynsamir á lokakaflanum, spiluðu langar sóknir og teygðu lopann eins og þeir gátu. Á endanum munaði þremur mörkum á liðunum, 29-32.

Gunnar: Auðvitað er þetta þreytandi

Gunnar Magnússon sagði að tæknimistök hefðu gert út af við möguleika hans manna á að vinna ÍBV.vísir/hulda margrét

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, sagði að fjöldi sóknarmistaka hefði verið munurinn á milli feigs og ófeigs gegn ÍBV í kvöld.

„Annað liðið var sextán tapaða bolta en hitt bara sex. Þetta eru tíu sóknir. Markvarslan var lítil báðu megin en við komum ekki nógu mörgum skotum á markið. Við getum greint einhver smáatriði hingað og þangað og það er margt sem við getum lagað en þú vinnur ekki leik með sextán tæknimistök, sama hver andstæðingurinn er,“ sagði Gunnar í leikslok.

Þrátt fyrir fjölda mistaka var Afturelding alltaf inni í leiknum. En á augnablikum þegar Mosfellingar gátu komið sér almennilega inn í leikinn gerðu þeir sig seka um klaufaleg mistök.

„Við náðum mörgum góðum köflum en þetta var alltaf sama sagan. Tæknimistökin fóru með þetta,“ sagði Gunnar.

„Þetta voru ekki bara tapaðir boltar heldur líka 6-7 hraðaupphlaup sem við fengum í bakið á okkur án þess að komast í vörn. Þetta var erfitt en við vitum hvað við þurfum að laga.“

Gunnar hefur ekki úr mörgum leikmönnum að spila og notaði aðeins níu útileikmenn í leiknum í kvöld. Sveinn Andri Sveinsson var utan hóps vegna meiðsla en Gunnar vonast til að hann snúi til baka áður en úrslitakeppnin hefst.

„Ég vona að Sveinn Andri nái einhverjum leikjum. Þorsteinn Leó [Gunnarsson] er búinn að liggja í flensu og svo er þetta bara sama sagan. Ég hef verið hérna í eitt og hálft ár og hef varla getað notað sama liðið tvo leiki í röð. Við erum alltaf að byrja upp á nýtt og leysa einhver vandamál og höldum því áfram,“ sagði Gunnar.

„En auðvitað er þetta þreytandi, ég viðurkenni það alveg. Við náum engum stöðugleika og kannski er það einhver skýring á tæknimistökunum. Menn mega samt ekki að kasta boltanum frá sér svona auðveldlega en við erum alltaf að lenda í áföllum, stórum áföllum.“

Erlingur: Svakalega erfitt að stefna á eitthvað sæti

Erlingur Richardsson var nokkuð sáttur með frammistöðu Eyjamanna í Mosfellsbænum.vísir/Hulda Margrét

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, gekk sáttur frá borði eftir þriggja marka sigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum.

„Það er alltaf gott að vinna og mér fannst við gera þetta nokkuð vel heilt yfir. Auðvitað var þetta kaflaskipt eftir enn eitt hléið. En þess þá heldur er ég sáttur með leikinn og hraðann í honum,“ sagði Erlingur.

„Eins og flest lið þurfum við smá takt. En eftir þetta hlé fannst mér þetta nokkuð vel gert.“

ÍBV var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-16, og jók forskotið í upphafi seinni hálfleiks. Afturelding jafnaði í 20-20 en ÍBV svaraði með þremur mörkum í röð.

„Mér fannst við tapa forystunni nokkuð hratt. Það var mínus en við náðum forystunni nokkuð hratt aftur. Þetta var kaflaskiptur leikur. Vörnin var ágæt, bæði 6-0 og 5-1. Björn [Viðar Björnsson] varði vel í seinni hálfleik og sóknarnýtingin var nokkuð góð,“ sagði Erlingur.

Hann segir vandasamt að setja sér markmið fyrir lokakafla tímabilsins.

„Það er svakalega erfitt að stefna á eitthvað sæti. Við erum fyrst og síðast að reyna að finna takt fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Erlingur að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira