Ståle Solbakken, landsliðsþjálfari Noregs í fótbolta, er með mjög sterkar skoðanir þegar kemur að því að leika á náttúrulegu grasi eða gervigrasi. Hann er líka alveg til í að láta þær í ljós í viðtölum við norska fjölmiðla eins og kom í ljós í gær.
Solbakken hefur kallað saman norska landsliðið í þessum landsleikjaglugga og ræddi þar stöðu norska fótboltans við blaðamenn.
Solbakken er á því að það sé ástæða fyrir því að Noregur eigi ekki fleiri leikmenn eins og súperframherjann Erling Braut Haaland. Jú hann kennir gervigrasinu um.
Solbakken er harður á því að ef að leikir í norsku úrvalsdeildinni hefðu farið fram á grasi en ekki gervigrasi þá hefði Noregur búið til fleiri stjörnuleikmenn eins og Haaland.
„Noregur hefur tapað hundruð milljóna norskra króna í peningum frá sölu leikmanna vegna gervigrassins af því að það hefur hindrað okkur í búa til leikmenn. Það er á hreinu,“ sagði Ståle Solbakken í viðtali sem Dagbladet segir meðal annars frá.
„Það er allt öðruvísi leikur á gervigrasi en á náttúrulegu grasi. Ég tel að leiðtogar félaganna hafi sofnað á verðinum. Þjálfara í Noregi hafa sofnað á verðinum. Blaðamenn hafa sofnað á verðinum. Fótbolti á að vera spilaður á grasi,“ sagði Solbakken.
„Þú verður að gera eins og þeir gera hjá Lillestrøm. Að vera með langtímamarkmið í gangi. Ég skil vel að þetta snýst um fjármál. Það sem ég skil ekki af hverju þetta er ekki í forgangi. Allur heimurinn spilar á grasi. Þar er keppt. Gras er því mikilvægt til að þjálfa upp annars konar leikmenn eins og miðjumenn og framherja. Við getum ekki aðeins átt skapandi miðjumenn sem eru góðir með boltann,“ sagði Solbakken.
Blaðamaður norska dagblaðsins stóðst þó ekki freistinguna og sagði að eftir viðtalið þá hafi Solbakken farið með norska landsliðið á æfingu, á gervigrasi.