Reuters greinir frá því að Manolis Androulakis hafi aðstoðað tugi Grikkja við að yfirgefa borgina á síðustu dögum. Hann hafi síðan sjálfur yfirgefið borgina í dag.
Androulakis segir að Maríupól muni fljótt skipa sér sess meðal þeirra borga sem þekktar eru fyrir þá gríðarmiklu eyðileggingu og þær hörmungar sem yfir þær hafa dunið á stríðstímum. Þar megi nefna Guernica á Spáni, Coventry í Englandi, Aleppo í Sýrlandi, og Grozny og Leníngrad í Rússlandi.
„Ég vona að enginn muni nokkurn tímann sjá það sem ég sá,“ sagði Androulakis þegar hann var lentur á alþjóðaflugvellinum í Aþenu í Grikklandi, hvar fjölskylda hans tók á móti honum.
Gríska utanríkisráðuneytið segir að Androulakis hafi verið síðasti erindreki Evrópusambandslanda til þess að yfirgefa borgina. Talið er að um 300.000 manns séu föst í borginni, sem er að stórum hluta án rafmgangs, gass og vatns. Þá er símasamband til borgarinnar stopult og árásir Rússa á borgina svo tíðar að íbúar hennar verja meirihluta tíma síns í sprengjuskýlum og neðanjarðarbyrgjum.