„Stóra myndin er sú að það er enn töluverður kraftur í kortaveltu heimila,“ segir Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur sjóðastýringarfélagsins Stefnis.
Tölurnar varpa einnig ljósi á breytt neyslumynstur. Velta innlendra greiðslukorta í verslunum innanlands, sem nam alls 65,6 milljörðum króna, dróst þannig saman um 2,2 milljarða milli ára en velta innlendra greiðslukorta í verslunum erlendis nærri tvöfaldaðist úr 6,9 milljörðum í 14,7 milljarða.
„Við erum að horfa á sterka einkaneyslu í upphafi árs en hún er nánast öll innflutt svo bein hagvaxtaráhrif af því eru aðeins tvísýnni,“ segir Konráð.
Þá nam heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi 10,5 milljörðum króna í febrúar og jókst um 9,1 milljarð milli ára. Á föstu gengi var veltan í febrúar aðeins 28 prósentum minni en í febrúar 2020.
„Heilt yfir má segja að endurkoma ferðamanna sé að vega vel upp á móti aukinni verslun og ferðalögum Íslendinga erlendis,“ segir Konráð. „Heildarkortavelta í verslun innanlands jókst um 17 prósent milli ár og það er sannarlega til þess fallið að styðja við kraftmikinn hagvöxt í ársbyrjun.“