Verði tillögur bankaráðs samþykktar á aðalfundi Landsbankans, sem fer fram 23. mars næstkomandi, mun bankinn greiða út samtals 20,55 milljarða króna í arð á árinu 2022, en greiðslurnar verða inntar af hendi í þremur áföngum á næstu fimm mánuðum. Íslenska ríkið er eigandi að næstum öllu hlutafé bankans, eignarhlutur þess nemur 98,2 prósentum, og mun ríkissjóður því fá tæplega 20,2 milljarða í sinn hlut.
Hagnaður Landsbankans á síðasta ári nam 28,9 milljörðum króna borið saman við 10,5 milljarða á árinu 2020. Arðsemi eigin fjár var 10,8 prósent – nokkuð minni en hjá Arion banka og Íslandsbanka – en eigið fé Landsbankans var 282,6 milljarðar í árslok 2021 og eiginfjárhlutfall bankans stóð í 26,6 prósentum.
Sú arðgreiðsla sem Landsbankinn var þegar búinn að tilkynna um vegna síðasta reikningsárs, eða upp á samtals 14,4 milljarða, samsvaraði því 50 prósent af hagnaði ársins 2021 en árið áður hafði bankinn greitt 4,5 milljarða í arð. Þá var einnig greint frá því þegar bankinn tilkynnti um afkomu sína fyrir síðasta ár í byrjun febrúar að bankaráð væri með til skoðunar að leggja til að greiddur yrði út sérstakur arður á árinu 2022.
Að því gefnu að tillögur bankaráðs verði samþykkar á komandi aðalfundi þá munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013 til 2022 nema samanlagt rúmlega 166,7 milljörðum króna.
Viðskiptabankarnir þrír munu því greiða samtals út 55 milljarða króna í arð til hluthafa sinna á þessu ári en heildarhagnaður þeirra í fyrra var um 81 milljarður króna. Mestu munar um 22,5 milljarða arðgreiðslu Arion banka og þá mun Íslandsbanki greiða út 11,9 milljarða króna í arð til hluthafa sinna í lok þessa mánaðar, en þær fara að meirihluta til ríkissjóðs sem fer enn með 65 prósenta eignarhlut í bankanum.
Til viðbótar arðgreiðslunum þá hafa stjórnir Arion banka og Íslandsbanka lagt það til á aðalfundum félagnna í vikunni að þeim verði veitt heimild að koma á fót endurkaupaáætlun, sem mun gilda í tólf mánuði, til að kaupa eigin bréf sem samsvarar allt að 10 prósent af hlutafé bankanna.
Arion banki greiddi út um 31,5 milljarð króna til hluthafa sinna í fyrra í formi arðs og endurkaupa á eigin bréfum. Við birtingu ársuppgjör Íslandsbanka í síðasta mánuði greindi bankinn frá þeim áformum að hann myndi kaupa eigin hluti fyrir um 15 milljarða króna á næstu mánuðum, eða sem svarar til um 6 prósent af útistandandi hlutum bankans, til dæmis með útboðsfyrirkomulagi.
Hlutabréfafjárfestar, eins og Innherji fjallaði um í síðustu viku, eiga von á því að fá samanlagt um 60 milljarða króna í sinn hlut í arð og aðrar greiðslur í tengslum við lækkun hlutafjár á komandi vikum frá þrettán félögum í Kauphöllinni. Það er um þrefalt hærri upphæð en skráð fyrirtæki greiddu út í arð til fjárfesta á öllu árinu 2021.
Viðmælendur á fjármálamarkaði telja víst að meirihluti þeirra fjármuna muni streyma aftur inn á markaðinn og endurfjárfest í félögum í Kauphöllinni, eins og oftast hefur verið raunin, einkum með hliðsjón af því að verðlagning margra þeirra er nú orðin hagstæðari eftir skarpar lækkanir á undanförnum vikum.