Fótbolti

Rekinn frá Bayern vegna rasískra ummæla við dóttur sína

Sindri Sverrisson skrifar
Starfsmaðurinn sá um búningamálin fyrir stjörnur Bayern München á æfingum.
Starfsmaðurinn sá um búningamálin fyrir stjörnur Bayern München á æfingum. Getty/Alex Grimm

Þýska knattspyrnustórveldið Bayern München rak starfsmann, sem starfað hafði fyrir félagið í meira en áratug, vegna rasískra ummæla sem hann lét falla.

Starfsmaðurinn vann sem búningastjóri og hafði til að mynda það hlutverk að sjá til þess að leikmenn vanhagaði hvorki um klæði né fæði á æfingum og í leikjum.

Samkvæmt frétt þýska blaðsins Bild var starfsmaðurinn með dóttur sína í heimsókn í skoðunarferð á Allianz Arena þegar þau mættu Serge Gnabry og Eric Maxim Choupo-Moting, sem báðir eru dökkir á hörund.

„Þú þarft ekkert að vera að koma með einn svona heim,“ mun starfsmaðurinn hafa sagt.

Fleira starfsfólk var viðstatt og vísaði ummælunum til stjórnenda félagsins sem sögðu búningastjóranum þegar í stað upp störfum.

Bayern München setti af stað herferðina „Rautt á rasisma“ árið 2020 og forseti félagsins, Harbert Hainer, sagði markmiðið að útrýma hvers konar mismunun. Félagið hafði þá rekið unglingaliðsþjálfara sem hafði orðið uppvís að óverjandi skilaboðum til nokkurra af leikmönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×