„Mér fannst fyrri hálfleikur bara allt í lagi, þetta var ekki merkilegur handbolti og við vorum stundum klaufar en vorum aðeins tveimur mörkum undir í hálfleik. Í seinni hálfleik var Valur einfaldlega betri aðilinn.“
„Mér finnst við eiga svolítið í land, ég verð að vera heiðarlegur með það,“ sagði Patrekur sem hefur áhyggjur eftir að hafa ekki unnið leik síðan í desember.
Patrekur þurfti að taka leikhlé snemma í fyrri hálfleik og síðari hálfleik vegna þess að það vantaði upp á spilamennsku Stjörnunnar.
„Skotin okkar fyrir utan voru ekki nægilega góð. Ég er ekki ánægður með hvernig við höfum spilað í febrúar. Við erum með átján stig og eru það bara stig sem við söfnuðum fyrir áramót. Það er fullt af stigum eftir í pottinum og við einfaldlega verðum að gefa í.“
Stjarnan hefur ekki unnið leik á árinu 2022 og hefur Patrekur miklar áhyggjur á spilamennsku liðsins.
„Auðvitað spilar andlega hliðin inn í þegar úrslitin falla ekki með okkur. Við fórum á taugum gegn Selfossi og KA en í kvöld fórum við ekki á taugum það vantaði bara meiri gæði og ferskleika.“
„Það getur vel verið að við séum að missa af heimavallarétti í úrslitakeppninni en það skiptir ekki öllu máli þar sem öll lið sem komast í úrslitakeppnina geta orðið Íslandsmeistarar, við verðum bara að komast þangað.“
Patrekur sagði að lokum að hann taki ábyrgðina á sig en hann veit að það eru margir í hans liði sem eiga mikið inni.