Handbolti

Framarar söfnuðu fyrir aðgerð ungrar konu

Sindri Sverrisson skrifar
Framarar lögðu hönd á plóg fyrir einn af sínum dyggustu sjálfboðaliðum.
Framarar lögðu hönd á plóg fyrir einn af sínum dyggustu sjálfboðaliðum. vísir/daníel

Leikur Fram og Víkings í Olís-deild karla í handbolta síðastliðinn laugardag var um leið styrktarleikur til að fjármagna kostnaðarsama aðgerð ungrar konu.

Framarar vildu nýta leikinn til að safna fé fyrir Ingunni Gísladóttur sem gegnt hefur sjálfboðaliðastörfum fyrir félagið og situr í stjórn handknattleiksdeildar Fram.

Nítján ára gömul dóttir Ingunnar fór í aðgerð vegna endómetríósu á Klíníkinni í febrúar – aðgerð sem að ekki er greidd af Sjúkratryggingum Íslands. Aðgerðin heppnaðist vel og líður dótturinni mikið betur eftir aðgerðina, að sögn Ingunnar.

Söfnunin gekk einnig vel og söfnuðust rúmlega 700.000 krónur fyrir Ingunni og fjölskyldu hennar. Hún kvaðst afar þakklát fyrir stuðninginn:

„Ég er orðlaus yfir því hvað Frammarar, leikmenn annarra liða, stuðningsmenn og vinir og ættingjar, lögðust á eitt til að hjálpa okkur. Leikmenn Víkings, eftirlitsmaður, dómarar og íþróttafréttamenn borguðu sig allir inn á leikinn til að styrkja okkur. Þessir styrkir og stuðningur er okkur mæðgum ómetanlegur. Við þökkum ykkur öllum sem lögðuð hönd á plóg alveg kærlega fyrir ykkar framlag og stuðning,“ skrifaði Ingunn á Facebook.

Ingunn og aðrir Framarar gátu einnig fagnað því að Fram vann leikinn gegn Víkingi, 25-23, og náði sér í tvö stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppni Olís-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×