Röð myndaðist fyrir utan Múlakaffi í hádeginu í dag enda sprengidagur og fólk vitlaust í saltkjöt og baunir.
Er þess virði að bíða í röð eftir matnum?
„Það held ég. Óðir í saltkjöt og baunir. Ég ætla að springa,“ sögðu Björn Áki og Lambi.
Hvernig smakkast?
„Þetta er alveg rosalega gott,“ sagði Sæmundur.
„Ég kem árlega hingað og hef gert í fimm ár,“ sagði Ingibjörg Ásta Bjarnadóttir.
„Eins og hjá mömmu í gamla daga“
Besta saltkjötið í bænum?
„Besta saltkjötið í bænum, klárlega,“ sagði Ingibjörg.
„Þetta er algjörlega ómissandi. Fastur liður og þetta er bara eins og hjá mömmu í gamla daga. Það er bara þannig,“ sagði Þór.
Það eru góð meðmæli?
„Geggjuð meðmæli. Jói [Jóhann í Múlakaffi] kann þetta allt,“ sagði Þór sem var boðinn í annað saltkjötsboð eftir hádegi.
„Ég fer í seinni umferðina þá. Þetta er einu sinni á ári og af hverju ekki að njóta þess. Þetta er sprengidagurinn,“ sagði Þór.
Já og þá á maður að springa. Yfirkokkurinn hafði varla tíma til að líta upp úr pottunum enda brjálað að gera.
Er þetta einn af stærstu dögum ársins?
„Já þetta er annar af okkar stærri dögum á árinu. Svo eru það Þorláksmessan. Þetta eru okkar dagar,“ sagði Guðjón Harðarson, yfirkokkur á Múlakaffi.
Hvað ertu að verka mikið af kjöti í dag?
„Tvö og hálft tonn af saltkjöti.“
Fer þetta allt ofan í maga fólks?
„Já það verður lítið eftir í kvöld.“
Í dag er búið að fara í gegnum þrjá svona potta eins og sjást á myndbandinu. Það er nóg eftir. Það er áætlað að magnið sem Múlakaffi framleiðir fari í magann á fjögur þúsund Íslendingum.
Hvernig er líðanin í kvöld þegar saltið leggst í æðarnar?
„Það er aðallega bjúgurinn á morgnanna sem vinnur á móti þessu, en allt annað en það er bara eintóm unun. Allt þess virði,“ sagði Ingibjörg Ásta.