Innlent

Tveimur mönnum bjargað úr bíl umluktum sjó í Keflavík

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Keflavík
Keflavík Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Tveimur mönnum var bjargað úr bíl við Keflavíkurhöfn í kvöld en bíll þeirra lenti í lóni sem hafði myndast vegna mikils sjógangs við höfnina. Lögregla segir mennina heila og höldnu. 

Vakthafandi varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum staðfestir í samtali við fréttastofu að mönnunum hafi verið bjargað en Víkurfréttir greindu fyrst frá. 

Að því er kemur fram í frétt Víkurfrétta hefur mikill sjógangur verið við höfnina í kvöld og hafði lón myndast við gömlu saltgeymsluna. Þá hafi bílnum verið ekið út í lónið og sátu mennirnir þar fastir. 

Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna málsins og náðist skömmu síðar að bjarga mönnunum. 

Veðurviðvaranir eru nú í gildi um allt land og hafa björgunarsveitir mest megnis sinnt fok- og vatnsverkefnum, auk þess að losa fasta bíla. Verkefnin voru orðin yfir 150 talsins upp úr klukkan tíu í kvöld að sögn verkefnastjóra hjá Landsbjörgu. 


Tengdar fréttir

Björgunarsveitir að störfum víða: „Verkefnin eru að tínast inn“

Það sem af er kvöldi hafa björgunarsveitir sinnt rúmlega 70 verkefnum víðs vegar um landið. Verkefnastjóri hjá Landsbjörgu segir að mest megnis sé um að ræða fok- og vatnsverkefni en einnig er mikið um fasta bíla. Hún segir verkefnin halda áfram að týnast inn og eru þau nú að aukast í fleiri landshlutum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×