Sport

Þórdís og Ísak Íslandsmeistarar í fjölþraut innanhúss í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórdís Eva Steinsdóttir fékk ekki mikla keppni um helgina.
Þórdís Eva Steinsdóttir fékk ekki mikla keppni um helgina. FRÍ

Þórdís Eva Steinsdóttir og Ísak Óli Traustason urðu Íslandsmeistarar í karla- og kvennaflokki um helgina þegar fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum í Kaplakrika.

Þórdís, sem keppir fyrir FH, hlaut 3708 stig í fimmtarþraut kvenna en hún var eini keppandinn. Þórdís fékk flest stig fyri 60 metra hlaup þar sem hún hljóð á 9,12 sekúndum og náði í 885 stig. Hún fékk næst mest fyrir 800 metra hlaup eða 803 stig.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá keppni Þórdísar um helgina.

Ísak Óli, sem keppir fyrir UMSS, náði í 4333 stig í sjöþraut karla. Hann gerði samt ógilt í langstökki og hlaut því ekkert stig fyrir þá grein. Það kom þó ekki í veg fyrir öruggan sigur en annar var Dagur Fannar Einarsson með 2715 stig. Dagur mætti þó bara til leiks annan daginn og Kolbeinn Höður Gunnarsson, sem var líka skráður til keppni, var ekkert með.

Ísak Óli fékk flest stig fyrir 60 metra grindahlaup þar sem hann hljóp á 8,43 sekúndum og náði í 877 stig.

Thomas Ari Arnarsson setti síðan aldursflokkamet í fimmtarþraut 15 ára og yngri og hlaut 2727 stig fyrir sína þraut. Metið átti áður Markús Birgisson en hann setti það árið 2020 með því að ná í 2651 stig. Thomas Ari var því að bæta gamla metið um 76 stig sem er mikil bæting. Greinilega efnilegur strákur hér á ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×