Eftir markalausan fyrri hálfleik þá vann topplið Real Madrid þægilegan 3-0 sigur á Alaves á heimavelli í kvöld í spænsku úrvalsdeildinni, la Liga.
Fyrir leikinn var Real Madrid með fjögurra stiga forystu á Sevilla á toppi deildarinnar en Alaves sat í nítjánda sætinu með tuttugu stig og því ljóst að þetta var eiginlega skyldusigur fyrir Madrídinga.
Eftir markalausan fyrri hálfleik sem var eign heimamanna þá tókst þeim að koma boltanum í netið á 63. mínútu. Marco Asensio fékk þá boltann á hægri kantinum frá Karim Benzema og klíndi boltanum upp í hornið fjær. Frábært mark.
Benzema var í þjónustuhlutverki í dag framan af og lagði aftur upp mark á 80. mínútu. Í þetta sinn var það Vinicius Jr. sem skoraði eftir undirbúning franska framherjans. Frábært spil heimamanna skilaði Benzema upp að endamörkum og Vinicius Jr. átti ekki í vandræðum með að klára fyrirgjöfina.
Benzema gerði svo sjálfur úti um leikinn á vítapunktinum á 91. mínútu leiksins. Þægilegur sigur Real Madrid sem hefur nú sjö stiga forystu á toppi deildarinnar. Alaves er áfram í nítjánda og næst síðasta sætinu.