Alþýðusambandið lagði áherslu á það í faraldrinum að ríkið myndi setja fyrirtækjum ströng skilyrði áður en þau gætu sótt sér styrki.
Slík skilyrði voru sett fyrir hlutabótaleiðinni en sambandið gagnrýnir nú mjög að það sama hafi ekki gilt um aðra styrki og stuðning til fyrirtækja eins og til dæmis lokunarstyrki, tekjufallsstyrki og frestanir á opinberum gjöldum.
Og nú vill verkalýðshreyfingin að það verði kortlagt nákvæmlega hvaða fyrirtæki nýttu sér styrkina og hversu mikið.
Fengu styrki og hækkuðu laun stjórnenda
„Ég tala nú ekki um í ljósi þess að nú er áætlað að fyrirtæki muni greiða um tvö hundruð milljarða í arðgreiðslur og uppkaup eigin bréfa núna á þessu ári,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og annar varaforseti miðstjórnar Alþýðusambandsins.
Eðlilegast væri að einhver fyrirtæki yrðu krafin um að endurgreiða ríkinu þá styrki sem þau nýttu sér.
„Ef það kemur í ljós að fyrirtæki sem að eru einmitt að greiða sér út háar arðgreiðslur, setja upp einhver bónuskerfi eða hækka laun stjórnenda um margfalt það sem þau telja vera eðlilegt að gerist á almennum vinnumarkaði að við getum gert þá kröfu að þessir styrkir verði þá bara endurgreiddir,“ segir Ragnar Þór.
Hann segir að afar ströng skilyrði séu alltaf sett á alla aðstoð sem einstaklingar geti sótt sér frá ríkinu, til dæmis atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna og sértæk úrræði í faraldrinum eins og frystingu lána.
„Og við erum bara að krefjast þess að það sama gangi yfir alla. Og þetta þarf að vera uppi á borðum. Það er nauðsynlegt að fólk almennt, bara almenningur í landinu, sé með það alveg á hreinu hvert þessir styrkir fóru upp á krónu og hvaða fyrirtæki fengu þessa styrki og hversu mikið,“ segir Ragnar Þór.