Fyrirhugað er að halda aðalfund Eflingar öðru hvoru meginn við páskahelgina sem hefst á skírdag hinn 14. apríl. Þar munu Sólveig Anna Jónsdóttir nýkjörin formaður félagsins og sjö stjórnarmenn formlega taka við embættum sínum. Sólveig Anna telur eðlilegt að halda aukaaðalfund til að flýta stjórnarskiptunum. Það hafi verið ákvörðun trúnaðarráðs að flýta formannskjöri eftir að hún sagði af sér í lok október.

„Tilgangur þess var auðvitað að fá þessa skýru niðurstöðu fram. Hver ætti þá að leiða félagið. Auðvitað leiðir af því í mínum huga, já það þarf að gera það kleift fyrir nýja forystu að komast inn til að byrja alla þá mikilvægu vinnu sem við þurfum að vinna sem allra fyrst,“ segir Sólveig Anna.
Það væri hins vegar trúnaðarráðs að ákveða þetta en ekki hennar.
Ólöf Helga Adolfsdóttir sem var formannsefni uppstillingarnefndar og núverandi starfandi varaformaður Eflingar telur aftur á móti enga þörf á að flýta stjórnarskiptum með boðun aukaaðalfundar.

„Ég held að það standist bara ekki lög Eflingar. Enda eru stjórnarskipti ekki brýn nauðsyn eða einhvers konar neyðarúrræði,“ segir Ólöf Helga. Eðlilegast væri að aðalfundurinn færi fram eins og áætlað hafi verið í apríl.
Það liggur ekki á að ný forysta komist að því að móta stefnuna við kjaraviðræðurnar?
„Jú, að sjálfsögðu. Þau eru félagsmenn í Eflingu og alltaf velkomin hérna, núna og á næstu dögum ef þau vilja. Svo taka þau bara við í apríl,“ segir Ólöf Helga.
Eitt aðalviðfangsefnið við upphaf kjaraviðræðna hverju sinni er hvort stéttarfélög sæki fram saman eða í sitthvoru lagi. Efling er aðili að Starfsgreinasambandinu og Alþýðusambandinu og það gekk á ýmsu í samskiptum forystu Eflingar og VR við heildarsamtökin við gerð kjarasamninga 2019.
Sólveig Anna segir koma í ljós hvort Efling eigi áfram samleið með heildarsamtökunum.
„Þetta er umræða sem mjög mikilvægt er að fari fram á hinum lýðræðislega vettvangi félagsins. Að félagsfólk sjálft taki þessa umræðu. Skoði málin, kafi af dýpt í þau og ákveði svo hvað þau vilja gera,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.