Innherji

Síminn furðar sig á tilhæfulausri pillu frá ráðherra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans, og Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra. 
Orri Hauksson, forstjóri Símans, og Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra.  Samsett mynd

Orri Hauksson, forstjóri Símans, vísar ummælum Lilju Alfreðsdóttur, menningarmálaráðherra, á bug en ráðherra beindi því til Símans að skila fjölmiðlastyrkjum í ríkissjóð ef fyrirtækið teldi sig „of fínt“ fyrir styrkina. Síminn hefur ekki fengið neina styrki af þessu tagi. Hann fagnar þó breyttum áherslum ráðherra sem hyggst taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.

Í frétt Kjarnans um erindi ráðherra á málþingi um fjölmiðla var haft eftir Lilju að hún hefði orðið fyrir vonbrigðum með það hvernig sumir fjölmiðlar nálguðust umræðuna um fjölmiðlastyrki. Nefndi hún sérstaklega Símann og Sýn.

Haft var eftir Lilju að hún hefði vitað að Sýn myndi leggjast gegn fjölmiðlastyrkjum því það væri „svolítið í DNA-inu á þessum aðilum“ og það ætti líka við um Símann.

„Þeir voru of fínir fyrir þetta. Og þá segi ég bara, ef þið eruð of fínir fyrir þetta, getið þið þá ekki bara vinsamlegast skilað þessum peningum í ríkissjóð svo litlu og meðalstóru fjölmiðlarnir fái þetta, sem hafa ekki jafn sterka bakhjarla og þið,“ sagði Lilja.

Í samtali við Innherja segir Orri að enginn fótur sé fyrir þessari gagnrýni. „Þetta kemur okkur á óvart því Síminn fékk ekki krónu við úthlutun fjölmiðlastyrkja og ég veit því ekki hvaða peningum við ættum að skila. Þetta er byggt á grundvallarmisskilningi,“ segir Orri.

Síminn hefur hins vegar gagnrýnt frumvarp Lilju um fjölmiðlastyrki á þeim forsendum að Ríkisútvarpið standi óhaggað á auglýsingamarkaði og styrkveitingar skekki samkeppni milli miðla.

Síminn fékk ekki krónu við úthlutun fjölmiðlastyrkja og ég veit því ekki hvaða peningum við ættum að skila

„Það skýtur skökku við að Ríkisútvarpið sé enn á auglýsingamarkaði á sama tíma og ríkið notar almannafé til að styrkja fjölmiðla í erfiðri samkeppni gagnvart Ríkisútvarpinu. Hitt er að þetta skapar samkeppnisskekkju milli miðla þegar keppinautar okkar geta þegið styrki fyrir að halda úti fréttastofu en ekki við. Fréttastofa er ekki það eina sem hefur samfélagslega þýðingu,“ segir Orri. „Lækningin er í þessu tilfelli verri en sjúkdómurinn.“

Á málþinginu talaði Lilja fyrir því að innleiða „dönsku fjölmiðlastefnu“ og taka þannig Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði ásamt því að styrkja einkarekna fjölmiðla með mismunandi leiðum. Einnig sagðist hún vilja auka sanngirni í skattlagningu milli íslenskra fjölmiðla og erlendra stórfyrirtækja sem selja auglýsingar á netinu. Þessum áherslubreytingum fagnar Síminn.

„Okkar skoðun er að það eigi frekar að koma böndum á ósanngjarna samkeppni frá hinu opinbera og erlendum fyrirtækjum sem er hvorki gert að þýða efni né borga skatta hér á landi til jafns við íslensk fyrirtæki,“ segir Orri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×