Bíó og sjónvarp

Framtíð Nágranna í mikilli hættu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hjónunum Susan og Karl Kennedy, leikin af Jackie Woodburne og Alan Fletcher, hefur líklega brugðið við tíðindin.
Hjónunum Susan og Karl Kennedy, leikin af Jackie Woodburne og Alan Fletcher, hefur líklega brugðið við tíðindin. Fremantle/Channel 5

Óvíst er hvort að framleiðslu áströlsku sápuóperunnar vinsælu Nágranna verði haldið áfram. Sjónvarpsstöðin sem borgar brúsann fyrir framleiðslu þáttanna hefur ákveðið að skrúfa fyrir kranann.

Fjallað var um málið í áströlskum fjölmiðlum yfir helgina. Í frétt Sydney Morning Herald kemur fram að framleiðslufyrirtæki þáttanna, Fremantle Media, og breska sjónvarpsstöðin Channel 5 hafi ekki náð saman um nýjan samning um framleiðslu þáttanna.

Fjármagn til framleiðslu þáttanna hefur á undanförnum árum að megninu til komið frá Channel 5, sem sýnir þættina í Bretlandi. Án fjármagns þaðan er illmögulegt að halda framleiðslu áfram. Talið er að framleiðsla þáttanna kosti um tuttugu milljónir ástralska dollara á ári, um 1,7 milljarð króna.

Fremantle Media hefur því tilkynnt að án samnings frá Bretlandi sé ekki hægt að halda framleiðslu áfram mikið lengur, því verði framleiðslu þáttanna hætt í sumar, í júní nánar tiltekið. Verið er að reyna að finna annan breskan samstarfsaðila.

„Þær viðræður eru í gangi, en það liggur ekkert fyrir um nýjan sýningaraðila og þess vegna þarf að hætta framleiðslu, og setja þáttinn þar með á ís,“ er haft eftir Jason Herbison, framkvæmdastjóra Fremantle Media.

Uppeldisstöð Hollywood-stjarna Ástralíu

Neighbours hóf göngu sína í áströlsku sjónvarpi árið 1985. Þættirnir eru sýndir í Ástralíu á sjónvarpsstöð sem nefnist Network Ten. Þar á bæ vonast menn til þess að geta haldið þáttunum áfram á lífi, en það veltur mjög á því hvort að Fremantle takist að semja við sýningaraðila í Bretlandi.

Nágrannar eru Íslendingum góðkunnir enda hafa þeir verið sýndir á Stöð 2 hér á landi um árabil. Þættirnir hafa verið uppeldisstöð margra af helstu stjörnum ástralskrar leiklistar. Má þar nefna Russel Crowe, Liam Hemsworth, Margot Robbie, Guy Pearce og Kylie Minouge, svo dæmi séu tekin.

Aðdáendur þáttanna hafa ekki tekið fregnunum vel. Hefur undirskriftarsöfnun verið sett af stað til að hvetja Channel 5 til aðendurskoða ákvörðun sína. Hátt í tuttugu þúsund manns hafa skrifað undir þegar þetta er skrifað.


Tengdar fréttir

Boða ótrúlega endurkomu Dee þremur árum eftir að tvífari hennar plataði Toadie upp úr skónum

Það ætlaði allt að verða vitlaust þegar forsvarsmenn Nágranna tilkynntu árið 2016 að hin vinsæla persóna Dee Bliss myndi snúa aftur í þáttinn eftir vofeiglegan dauða hennar 13 árum áður. Í ljós kom þó síðar að um tvífara hennar væri að ræða. Nú hafa aðstandendur þáttarins hins vegar tilkynnt að Dee muni snúa aftur, í alvörunni í þetta skiptið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×