Fjallað var um málið í áströlskum fjölmiðlum yfir helgina. Í frétt Sydney Morning Herald kemur fram að framleiðslufyrirtæki þáttanna, Fremantle Media, og breska sjónvarpsstöðin Channel 5 hafi ekki náð saman um nýjan samning um framleiðslu þáttanna.
Fjármagn til framleiðslu þáttanna hefur á undanförnum árum að megninu til komið frá Channel 5, sem sýnir þættina í Bretlandi. Án fjármagns þaðan er illmögulegt að halda framleiðslu áfram. Talið er að framleiðsla þáttanna kosti um tuttugu milljónir ástralska dollara á ári, um 1,7 milljarð króna.
Fremantle Media hefur því tilkynnt að án samnings frá Bretlandi sé ekki hægt að halda framleiðslu áfram mikið lengur, því verði framleiðslu þáttanna hætt í sumar, í júní nánar tiltekið. Verið er að reyna að finna annan breskan samstarfsaðila.
„Þær viðræður eru í gangi, en það liggur ekkert fyrir um nýjan sýningaraðila og þess vegna þarf að hætta framleiðslu, og setja þáttinn þar með á ís,“ er haft eftir Jason Herbison, framkvæmdastjóra Fremantle Media.
Uppeldisstöð Hollywood-stjarna Ástralíu
Neighbours hóf göngu sína í áströlsku sjónvarpi árið 1985. Þættirnir eru sýndir í Ástralíu á sjónvarpsstöð sem nefnist Network Ten. Þar á bæ vonast menn til þess að geta haldið þáttunum áfram á lífi, en það veltur mjög á því hvort að Fremantle takist að semja við sýningaraðila í Bretlandi.
Nágrannar eru Íslendingum góðkunnir enda hafa þeir verið sýndir á Stöð 2 hér á landi um árabil. Þættirnir hafa verið uppeldisstöð margra af helstu stjörnum ástralskrar leiklistar. Má þar nefna Russel Crowe, Liam Hemsworth, Margot Robbie, Guy Pearce og Kylie Minouge, svo dæmi séu tekin.
Aðdáendur þáttanna hafa ekki tekið fregnunum vel. Hefur undirskriftarsöfnun verið sett af stað til að hvetja Channel 5 til aðendurskoða ákvörðun sína. Hátt í tuttugu þúsund manns hafa skrifað undir þegar þetta er skrifað.