Innlent

Sólveig Anna og Ólöf Helga talast ekki við

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir töldu Ólöfu Helgu og Sólveigu Önnu samherja og því hafa átök þeirra á milli komið á óvart.
Margir töldu Ólöfu Helgu og Sólveigu Önnu samherja og því hafa átök þeirra á milli komið á óvart.

Ólöf Helga Adolfsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir, sem báðar sækjast eftir því að verða formaður Eflingar, talast ekki lengur við. Frá þessu greinir Fréttablaðið en það segir Sólveigu Önnu hafa hafnað sæti á lista stjórnar Eflingar, sem Ólöf Helga leiðir.

Fréttablaðið segir heimildum sínum ekki bera saman um hvort Sólveigu Önnu bauðst að leiða listann en hefur eftir henni sjálfri að uppstillinganefnd hafi ekki boðið henni efsta sætið.

Það hefur komið mörgum á óvart að Ólöf Helga og Sólveig Anna séu komnar í slag um forystuna í Eflingu en Sólveig var ötull stuðningsmaður Ólafar í baráttu hennar gegn Icelandair, sem Efling sakaði um ólöglega uppsögn.

Ólöfu var sagt upp á meðan hún var enn skráður trúnaðarmaður fyrirtækisins en líkt og þekkt er orðið sagði Sólveig Anna af sér sem formaður Eflingar vegna athugasemda trúnaðarmanna starfsfólks Eflingar um stjórnunarstíl hennar.

Ólöf Helga hefur sagt við fjölmiðla að starfsandinn á skrifstofu Eflingar hafi batnað til muna síðustu mánuði en mbl.is greindi frá því í gær að starfsfólk félagsins óttaðist endurkomu Sólveigar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×