Bíó og sjónvarp

„Við erum öll í þessu af hjartans list“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gísli Örn Garðarsson var kampakátur með nýjustu verðlaunin.
Gísli Örn Garðarsson var kampakátur með nýjustu verðlaunin. Vísir/Vilhelm

„Manni finnst eins og það sé svolítið fullorðins að vinna þessi verðlaun.“

Þetta sagði Gísli Örn Garðarsson leikari og handritshöfundur þegar fréttastofa náði tali af honum í dag. Tilefnið er að hann, auk Nínu Daggar Filippusdóttur og Mikaels Torfasonar, tók á móti Norrænu sjónvarpshandritaverðlaununum nú síðdegis í Gautaborg fyrir sjónvarpsþáttaröðina Verbúðina.

Þættirnir hafa hlotið mikla athygli og mikið lof bæði á Íslandi og utan landsteinana enda fjalla þeir um eldfimt umfjöllunarefni; kvótakerfið á Íslandi. Gísli Örn var djúpt snortinn vegna verðlaunanna enda eru þeir handritshöfundar sem einnig voru tilnefndir mikilsmetnir í sjónvarpsþáttageiranum.

„Þetta er ótrúlega gaman. Ég get ekki leynt því. Það eru svo miklar kanónur hérna í sjónvarpshandritagerð. Þetta eru Danir, Svíar, Norðmenn og Finnar. Danir eru náttúrulega bara bestir í heimi. Manni líður svolítið eins og að hér sé fullorðna fólkið,“ segir Gísli Örn.

Hann er sannarlega ekki búin að gleyma hógværðinni því honum sagðist líða eins og „krakka sem fái að fljóta með“.

Aðspurður hvort draga mætti þann lærdóm af verðlaununum að það sé til mikils að vinna fyrir Íslendinga að segja sínar sögur og sögur sem séu einkennandi fyrir þjóðina stendur ekki á svari hjá Gísla Erni.

„Það virðist vekja mun meiri áhuga en maður hafði ímyndað sér í fyrstu og þorað að vona. En eins og ég segi samt þá verður maður fyrst og fremst að fylgja sögu síns eigin hjarta því þetta er svo mikil vinna og þetta tekur svo mikinn tíma. Þannig er ekki hægt að fylgja neinu nema því sem hjartað segir manni að fylgja. Það er þess vegna alveg stórkostlegt þegar manni tekst að uppskera ríkulega af því eins og í þessu tilfelli,“ segir Gísli Örn.

Þá var hann að lokum spurður hvort hann hefði búist við því fyrir fram að þáttur þar sem kvótakerfið og slor er miðlægt umfjöllunarefni myndi vekja svona mikla lukku.

„Nei, en þegar maður er á kafi í þessu og með hausinn ofan í þessari sköpun í svona langan tíma; að búa til þessar persónur og ferðalög þeirra og flétta kvótakerfið inn í þetta þá er það mjög sjaldan sem maður horfir upp og hugsar um hvernig sagan muni fara í unga fólkið eða eitthvað slíkt. Maður bara veður áfram eldinn og svo þegar komið er að því að sýna þetta þá verður maður stressaður og hugsar „Guð! Hvað ef þetta er algjört rusl og hvað ef þetta er ekki nógu gott?“ En í ferlinu er maður bara upptekin af sköpuninni. Við erum öll í þessu af hjartans list.“


Tengdar fréttir

Verbúðin hlaut Norrænu sjónvarpshandritaverðlaunin

Sjónvarpsþættirnir Verbúðin hlutu rétt í þessu Norrænu sjónvarpshandritaverðlaunin á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð, Göteborg Film Festival. Rakel Garðarsdóttir deilir þessum gleðifréttum á samfélagsmiðlum.

Verbúðin er því sem næst heilagur sannleikur

Eins og þjóðin komst að í gærkvöldi sprakk allt í loft upp í Verbúðinni. Handalögmál milli tveggja aðalpersóna í þætti sjálfs Hemma Gunn – hið persónulega drama þáttanna er að nálgast hápunkt sinn í 5. þætti af átta. Eins og vera ber ef horft er til byggingar í leikverkum Grikkjanna; ris, hvörf og kennsl – Kaþarsis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×