Umspilið fer fram um miðjan apríl og dróst Ísland gegn sigurliðinu úr einvígi Austurríkis og Eistlands sem fram fer í mars.
Ísland hefur um árabil verið á undanþágu hjá EHF til að spila landsleiki í Laugardalshöll, þó að hún uppfylli ekki öll skilyrði fyrir mótsleiki landsliða.
Laugardalshöll hefur hins vegar verið lokuð frá því í nóvember 2020, vegna mikilla vatnsskemmda, og eftir því sem næst verður komist er ólíklegt að hægt verði að spila í henni að nýju fyrr en í sumar. Því þarf að leita annað.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir í svari við fyrirspurn Vísis ekki útlit fyrir að Ísland þurfi að spila heimaleik sinn í HM-umspilinu annars staðar en á Íslandi.
„Við reiknum með að fá undanþágu til þess að leika á Ásvöllum,“ segir Róbert og heimavöllur Hauka verður því væntanlega heimavöllur íslenska landsliðsins.
Verið með á sex heimsmeistaramótum í röð
Ísland varð í 20. sæti á HM í Egyptalandi fyrir ári síðan og hefur verið með á síðustu sex heimsmeistaramótum í röð, eða frá því að liðið missti af sæti á HM í Króatíu 2009 eftir naumt tap gegn Makedóníu í umspili.
Ísland tapaði reyndar gegn Bosníu í umspili fyrir HM 2015 en fékk svokallað wildcard-sæti á mótinu. Ísland þurfti ekki að fara í umspil fyrir HM í Egyptalandi þar sem að hætt var við það vegna kórónuveirufaraldursins.