Leikjavísir

Expeditions: Rome - Ekki besti leikur í heimi en þó skemmti­legur

Samúel Karl Ólason skrifar
FotoJet
THQ Nordic

Expeditions Rome er skemmtilegur og góður herkænskuleikur sem byggir á því góða sem finna mátti í Expeditions Viking, forvera Rome. Í stað þess að herja á Breta fá spilarar nú að stýra herdeildum Rómar um víðan völl og berja á óvinum borgarinnar eilífu.

Byrjum á alvarlegri játningu: Ég, Samúel Karl Ólason, eða Sammi, eða herra Samúel ef þú sendir mér bréf, hef spilað Total War: Rome 2 allt, allt of mikið.

Ég hef einkar mikinn áhuga á þessum tíma og Rómaveldi sjálfu. Því varð ég mjög ánægður þegar ég sá að verið væri að gera nýjan Expeditions-leik sem átti að gerast á tímum Rómaveldis.

Expeditions Viking var töluvert gallaður þegar hann kom fyrst út en hefur batnað mjög síðan þá. (Þetta var líka áður en ég gafst upp á að nota stjörnur. Í minningunni finnst mér Viking eiga meira skilið)

Sjá einnig: Óslípaður demantur

Expeditions: Rome gerir spilurum kleift að setja sig í spor ungs Rómverja af aðalsættum sem þarf að flýja frá borginni vegna einhverra drullusokka sem myrtu föður spilarans og eru með fjölskyldu hans í gíslingu.

Til að sleppa frá hættunni í Róm þurfa spilarar að taka þátt í Makedóníustríðunum svokölluðu, til að byrja með, og auka völd sín og áhrif í Róm. Við tekur heljarinnar ævintýri sem teygir anga sín til helstu héraða Rómaveldis og hitta spilarar marga af helstu persónum þessa tíma eins og til dæmis Sesar og Kleópötru.

Leikurinn fer að vísu nokkuð frjálslega með raunverulega sögu Rómar og Miðjarðarhafsins á þessum tíma en það er svo sem í góðu lagi.

Expeditions Rome er að mestu leyti svokallaður turn based strategy-leikur, sem þýðir að maður tekur þátt í tiltölulega smáum bardögum þar sem hver hlið skiptis á að hreyfa karla og konur milli reita og láta þau gera árásir á aðra karla og konur, eða tunnur.

Spilarar verja líka miklum tíma í að skoða kort af mismunandi svæðum heimsins og færa herdeildir um.

Herdeildirnar notar maður til að ráðast á eða verja bæi, eða til þess að tryggja yfirráð yfir námum og öðrum auðlindum sem spilarar nota svo til að betrumbæta herdeildirnar sjálfar. Þá notar maður söguhetju leiksins og vini hans sem nokkurs konar sérsveit sem tekur þátt í minni átökum, launmorðum og jafnvel fjöldamorðum á fólki sem hefur ekkert gert nema orðið veikt.

THQ Nordic

Ég vil taka fram að ég er ekki búinn með leikinn enn, enda segir THQ að það taki um 70 klukkustundir að klára hann. Ég er þó kominn vel á leið og hef skemmt mér vel, nema þegar mér hefur gengið illa.

Flókinn og oft illskiljanlegur

Talandi um, eða skrifandi um, umfang leiksins þá er það einn hans helsti galli. Það getur verið of mikið um að vera í honum og í of mörg horn að kíkja. Það hefur svo sem ekkert truflað mig en þetta getur verið þreytandi.

Maður þarf að halda utan um heilu herina í Expeditions Rome og helstu félaga manns sem berjast með manni og hjálpa manni að leiða herdeildirnar. Maður þarf að líka að fylgjast með þrælunum, að herdeildirnar hafa mat og lyf og svo auðvitað peningum.

Peningarnir hafa reynst mér mesta vesenið og ég sólundaði miklu af þeim áður en ég lærði almennilega á leikinn.

Þar að auki þarf að gefa öllum hetjum leiksins vopn, betrumbæta þau og framleiða ný og betri. Ég er örugglega að gleyma einhverju en þetta getur verið mikið. Það tók mig til að mynda um sjö klukkustundir að fatta hvernig ég fæ fleiri hermenn í fyrstu herdeildina mína.

Heilt yfir mætti hjálpa manni mun betur við að skilja hvað er að gerast í þessum leik.

THQ Nordic

Orrustur sem klárast, einhvern veginn

Einn galli við leikinn snýr að orrustum herja sem nefna má er að það er í raun enga taktík þar að finna. Þess í stað eru þessar orrustur eins og vel skreytt Excel-skjöl, sem maður skilur ekki rassgat í.

Maður vinnur ekki á því að brjóta sér leið í gegnum víglínu óvina sinna með einhverri frábærri taktík heldur með því að greina tölurnar varðandi herina og finna þannig bestu leiðirnar, ef maður vissi almennilega hvað tölurnar þýða.

Þá hef ég tekið eftir því að eftir hverja orrustu virðist ég tapa mikilli reynslu úr herdeildinni, sem ég á erfitt með að skilja, því maður hefði haldið að hermenn öðluðust frekar reynslu í orrustum.

Ég hef samt fundið ágætis reglu. Yfirleitt er það þannig að ef þú ert með fleiri hermenn og ert ekki fífl, þá vinnur þú. Sesar hefði reyndar ekki sætt sig við þessa „reglu“ mína en hann verður bara að eiga það við sig.

THQ Nordic

Haugur af uppákomum

Á ferðum manns um sögusvið leiksins koma reglulega upp atvik þar sem spilarar geta tekið ákvarðanir sem hægt er að hagnast eða tapa á. Í einu tilfelli rambaði ég á þorp kvenna þar sem óvinur minn hafði farið um og myrt alla mennina. Mér stóð til boða að vopna konurnar svo þær gætu herjað á óvini mína eða fá þær til að ganga til liðs við herdeild mína í stuðningshlutverki.

Ég valdi síðari kostinn en sá eiginlega strax eftir því. Það eru sjaldan augljóslega réttar eða rangar ákvarðanir í þessum aðstæðum og afleiðingar þeirra geta komið í ljós seinna í leiknum.

Bardagakerfi Expeditions Rome er framúrskarandi.THQ Nordic

Frábært bardagakerfi

Bardagakerfi Expeditions Rome er sérstaklega gott. Það er fjölbreytt, krefjandi og í senn gefandi. Svo er reyndar merkilegt hvað það getur verið óþolandi, en það er yfirleitt bara þegar ég stend mig illa. Allt bardagakerfinu að kenna.

Spilarar geta myndað sex manna sveit fyrir bardaga og er hægt að skipa þær mismunandi tegundum hermanna.

Þar á meðal er hinn klassíski rómverski hermaður. Í mikilli brynju, með skjöld og með stutt sverð eða jafnvel spjót. Svo er hægt að vera með hermenn með lengri spjót sem geta jafnvel stutt aðra í bardögum. Við það bætast svo létt-brynjaðir hermenn með rýtinga, sem sérhæfa sig í því að laumast um og stinga óvini í bakið.

Það er einnig hægt að vera með bogamenn, lækna og aðra. Þið kannist væntanlega við þetta úr öðrum sambærilegum leikjum.

Með þessum fjölbreytileika er hægt að sníða sveitirnar að því hvernig maður vill spila og fara eftir því. Ég reyni til dæmis að vera með tvo fullbrynjaða gaura með sverð eða spjót sem sækja fram og verja. Við bak þeirra er ég svo með einn eða tvo gaura með lengri spjót sem geta gert árásir yfir framlínuna mína og fyrir aftan þá með einn eða tvo bogakarla og alltaf einn lækni.

Með þessari samsetningu og ítrekuðum quicksave-um, þá hef ég ekki tapað enn, þótt ég hafi kannski einu sinni eða tvisvar hætt í fýlu og farið að gera eitthvað annað.

Samantekt-Ish

Expeditions: Rome er ekkert besti leikur í heimi en fyrir aðdáendur herkænsku og Rómaveldis er hann æðislegur. Hann er sömuleiðis ekkert fullkomnasti leikur í heimi en gallarnir eru þó ekki af þeim toga að þeir komi niður á spiluninni. Í það minnst hef ég ekki rekist á slíka galla.

Sagan þykir mér áhugaverð og talsetning er mjög góð sömuleiðis. Það er í raun ekkert slæmt við leikinn þótt hann beri það alveg með sér að vera ekki dýrasti leikur sem gerður hefur verið.

En, eins og áður segir, þá er hann skemmtilegur og sérstaklega fyrir aðdáendur herkænsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×